Þetta kemur fram í tilkynningu frá skipuleggjendum keppninnar. Öryggisteymi hafi fljótlega fundið fólkið og í kjölfarið fylgt þeim út úr salnum. Á ljósmyndum af atvikinu má sjá fólk bera palestínska fánann á meðan tónlistarkonan Raphael flutti lagið New Day Will Rise. Sjálf lifði hún af hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael þann 7. október 2023.

Þátttöku Ísrael í Eurovision var einnig mótmælt þegar atriði keppninnar óku eftir túrkis dreglinum á mánudag. Ísraelski hópurinn sendi kvörtun til Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) eftir að ungur maður dró fingur eftir hálsi sér á meðan hann horfði í átt að vagni hópsins og hrækti í kjölfarið í áttina að honum.
Talað fyrir því að Ísrael verði vísað úr keppni
Þátttaka Ísraels í Eurovision hefur reynst umdeild síðustu ár vegna stríðsreksturs ísraelskra stjórnvalda á Gasa sem hefur leitt af sér gríðarmikið mannfall og eyðileggingu auk ásakana um stríðsglæpi. Dæmi eru um að önnur þátttökuríki hafi talað fyrir því að Ísrael verði meinuð þátttaka líkt og gerðist við Rússa eftir allsherjarinnrás þeirra inn í Úkraínu árið 2022.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra Íslands, hefur sagt að henni þyki óeðlilegt að Ísrael fái að taka þátt í keppninni og kallað eftir því að Ísland beiti sér á vettvangi Samtaka evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU). Írsku, spænsku og slóvensku almannamiðlarnir hafa einnig kallað eftir umræðu um þátttöku Ísraels í keppninni á vettvangi EBU vegna stríðsrekstursins á Gasa.
Fréttin hefur verið uppfærð.