Tilkynnt var um það í dag að allur eignarhluti ríkisins yrði seldur í yfirstandandi útboði í ljósi fordæmalausrar eftirspurnar innanlands.
Útboðshlutirnir með magnaukningunni voru samtals 850.000.007 almennir hlutir, eða 45,2 prósent af útgefnu og útistandandi hlutafé í Íslandsbanka hf.
Flestir geti búist við að fá sinn hlut
Jón segir að almenningur hafi getað keypt hlut fyrir allt að 20 milljónir króna. Það komi svo í ljós hvort fólk fái úthlutað alla upphæðina sem þau vildu fá eða hvort eftirspurnin hafi verið ennþá meiri þannig það komi einhver skerðing.
„En ég held að flestir geti búist við að fá stærstan hluta af því sem þeir óskuðu eftir,“ sagði Jón en hann var til viðtals í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. Viðtalið var tekið áður en helstu niðurstöður útboðsins voru birtar í kvöld.
Seinna í kvöld kom svo tilkynning frá fjármálaráðuneytinu þar sem fram kom að heildarvirði útboðsins á útboðsgenginu hafi numið rúmlega 90.576.000.746 krónum. Heildareftirspurnin hafi numið alls um 190 milljörðum króna.
Umfameftirspurnin hafi þannig numið 100 milljörðum króna.
Jón segir að tilkynnt verði um úthlutunina í fyrramálið og gengið verði frá viðskiptunum á þriðjudaginn næstkomandi.
Hann veit ekki hvort margir hafi keypt fyrir 20 milljónir.
„Nei ég nefnilega veit það ekki. Við vorum ekki söluaðili í útboðinu þannig ég sé ekki útboðsbókina. Þannig að það verður bara mjög fróðlegt að heyra hversu margir hafa tekið þátt.“
Höfðu eytt miklum tíma í að kynna bankann fyrir erlendum fjárfestum
Jón segir að miðað við tilkynninguna virðist vera að eftirspurnin frá almenningi hafi verið umfram það magn sem ríkið hafði til sölu. Það þýði að það sé ólíklegt að fagfjárfestar, innlendir og erlendir, fái úthlutun.
„Það má segja að það sé að einhverju leyti smá vonbrigði í því að hafa ekki fengið neitt, af því við höfum eytt miklum tíma undanfarið að kynna bankann fyrir fjárfestum og margir þar sem höfðu verið spenntir og voru að bíða eftir þessu,“ segir hann.
Erlendir fjárfestar sem bankinn hafi rætt við væru margir og ólíkir.
„Við vorum búin að fara til Norðurlandanna, London og til Bandaríkjanna að hitta allan skalann. Hitta litla fjárfesta sem eru svona mögulega að fjárfesta fyrir einstaka fjölskyldur. Svo eru það vogunarsjóðir og upp í allra stærstu fjárfesta í heimi sem eru að stýra trilljónum dollara. Við fundum áhuga hjá langflestum sem við hittum,“ segir hann.
Fólk horfi á þetta sem langtímafjárfestingu
Jón segir erfitt að segja til um það hvort gengið hafi verið of lágt.
„Nei það er nefnilega erfitt að segja, ég hef nú verið í þessu ansi lengi. Maður sér nú ýmir útboð og stundum ganga þau vel og stundum illa, oft munar ansi litlu.“
„Það byggir svolítið á því að það myndast svona stemning. Hérna einhvern veginn myndaðist stemning, gott veður í vikunni og létt yfir fólki. Fólk svona byrjaði að tala sín á milli og margir að spá og spekúlera og einhvern veginn myndast þessi alda sem vindur upp á sig og þannig verður þessi mikli áhugi,“ segir Jón.
Jón myndi sjálfur horfa á þessa fjárfestingu sem langtímafjárfestingu, en fólk verði að meta það fyrir sig og sumir séu að fara inn til skemmri tíma.
„Þetta er varfærinn banki með stöðugan rekstur, við horfum til lengri tíma og við horfum til lengri tíma og vonum að hluthafarnir geri það líka.“