Blíðskaparveðri er spáð á landinu öllu um helgina og óvenju miklum hlýindum miðað við árstíma. Ef veðurspár ganga eftir gæti hitinn jafnvel náð tuttugu og fimm stigum á Egilsstöðum á laugardaginn. Nokkuð hefur verið um ferðalanga þar í vikunni en í nótt gistu hundrað tuttugu og fimm manns á tjaldsvæðinu. Heiður Vigfúsdóttir framkvæmdastjóri tjaldsvæðisins á Egilsstöðum á von fleiri gestum um helgina.
„Það er nú bara hægt og rólega búið að vera fjölga fólki hérna á tjaldsvæðinu alla vikuna og það er búið að vera alveg dásamlegt veður alla vikuna og stefnir í áframhald á því. Maður sér alveg að pöntunum á bókunarsíðunni hefur fjölgað töluvert og símhringingum og annað þannig það er greinilegt að margir hverjir eru að stefna austur í blíðuna hjá okkur.“

Hún segir gestina sem dvelja á tjaldsvæðinu í dag bæði erlenda ferðamenn og Íslendinga í leit að sól.
„Þetta er náttúrulega ekki dæmigerður sumarleyfistími hjá Íslendingum sem eru náttúrulega bara fastir með börn enn þá í skóla. Þannig að fólk er ekki jafn sveigjanlegt að stökkva til. Maður sér allavega eldri borgarana okkar sem eru hættir að vinna og margir sem að mér heyrist samt ætla að leggja það á sig að koma alla leið austur um helgina til að fá smá vítamín í kroppinn og sól.“
Tjaldsvæðið sé stórt og nóg pláss fyrir alla sem vilja koma. Þá segir hún þennan mikla hita óvenjulegan miðað við árstíma og veðrið sannkallað sumarveður.
„Bara algjört þjófstart á sumrinu og við vonum að þetta sé bara vísbending um það sem koma skal hérna í sumar hjá okkur.“