Körfubolti

„Ein­hvers staðar er skemmt epli ef niður­staða þingsins var svona af­dráttar­laus“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Einar Karl Birgisson hefur ýmislegt við vinnubrögð stjórnar KKÍ að athuga.
Einar Karl Birgisson hefur ýmislegt við vinnubrögð stjórnar KKÍ að athuga.

Ekki eru allir á eitt sáttir með ákvörðun stjórnar KKÍ að breyta útlendingareglunum í íslenska körfuboltanum. Formaður körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar furðar sig á vinnubrögðum KKÍ.

Á stjórnarfundi KKÍ á laugardaginn var sú breyting gerð að lið mega vera með fjóra erlenda leikmenn á skýrslu í leikjum. Þeir mega allir vera inni á vellinum í einu. Lið mega tefla fram einum Bandaríkjamanni en opið er bæði fyrir Bosman A og B leikmenn.

Tvær þingályktunartillögur um útlendingamál voru lagðar fram á þinginu. Annarri var hafnað en stjórn sambandsins var þess í stað falið að útfæra þingályktunartillögu um svokallaða 3+2 reglu. Samkvæmt henni hefðu tveir Íslendingar þurft að vera inni á vellinum hverju sinni.

„Mér finnst skrítinn tónn í þeim tillögum miðað við þann skýra vilja á þinginu sem er nú æðsta vald körfuboltans. Í fyrsta lagi var þetta þingályktunartillaga og ábending til stjórnar en það er áhugavert að sjá hvernig menn unnu úr því,“ sagði Einar Karl Birgisson, formaður körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar, í samtali við Vísi.

Víðtækur stuðningur var við 3+2 þingályktunartillöguna á ársþinginu. Hún var samþykkt með 102 atkvæðum gegn 25 atkvæðum.

„Mér finnst niðurstaðan skrítin miðað við hve víðtækur stuðningur var við þingályktunartillöguna sem var að vísu bara áskorun til stjórnar. Þetta kemur spánskt fyrir sjónir,“ sagði Einar Karl.

„Einhvers staðar er skemmt epli ef niðurstaða þingsins var svona afdráttarlaus, að menn vildu fá stjórnina til að útfæra nýja reglu um erlenda leikmenn sem miðast við að hafa ekki fleiri en þrjá slíka inni á vellinum hverju sinni, en endar í því að þeir eru fjórir á skýrslu.“

Einar Karl segir þó að nýja reglan hafi breytingar í för með sér, sem takmarki fjölda erlendra leikmanna.

„Ef það eru fjórir á gólfi hefðirðu alveg getað verið með átta útlendinga en bara spilað á fjórum. Vissulega er þetta fækkun á útlendingum. En ég vísa í þingályktunartillöguna og atkvæðagreiðsluna og það kemur manni spánskt fyrir sjónir hversu frábrugðin þessi tillaga er stóra meirihlutanum á þinginu sem er æðsta vald körfuknattleikshreyfingarinnar,“ sagði Einar Karl.

„Stjórnin hefur sagt að hún telji sig hafa aukinn stuðning við þessa tillögu. Ef svo er verður maður að kyngja þessari niðurstöðu en það kemur manni spánskt fyrir sjónir að þetta sé niðurstaðan.“


Tengdar fréttir

Þriggja ára reglan heyrir sögunni til

Framkvæmdastjóri KKÍ segir að eftir mikla vinnu hafi verið ákveðið að leyfa fjóra erlenda leikmenn á leikskýrslu á næsta tímabili. Allir mega vera inni á vellinum á sama tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×