Þetta kemur fram í frétt RÚV. Haft er eftir Úlfari að hann hafi verið boðaður á fund dómsmálaráðherra og ráðuneytisstjóra í dómsmálaráðuneytinu í gær. Þar hafi honum verið sagt að samningurinn fæli í sér að hann myndi starfa fram í nóvember. Hann hafi þá ákveðið að biðjast lausnar á staðnum og mun hann því láta af störfum á miðnætti.
Ekkert tekið fram um efni fundarins
Úlfar segir í samtali við fréttastofu að hann hafi fengið fundarboð frá dómsmálaráðherra síðastliðinn föstudag um að hitta sig klukkan 11 á mánudagsmorgni. Ekkert hafi þá verið tekið fram um efni fundarins.
Hann segir að á fundinum hafi sér verið tilkynnt um að ráðherrann hafi tekið ákvörðun um að auglýsa stöðuna. Þegar honum hafi verið sagt að staðan yrði auglýst og samningur við hann ekki endurnýjaður hafi hann beðist lausnar á staðnum sem orðið hafi verið við.
„Ég átti ekki von á þessu. Þegar eru þær þakkir sem ég fæ frá ráðherranum fyrir mín störf,“ segir Úlfar. Hann vísar annars á dómsmálaráðherra til að ræða efni fundarins og hvað hafi þar átt sér stað.
Ljúfur og góður fundur með starfsfólki
Úlfar var á leið heim af fundi á lögreglustöðunni þegar fréttastofa náði tali af honum. Hann hafi þar verið að kveðja sitt starfsfólk. „Það var ljúfur og góður fundur,“ segir Úlfar.
Í samtali við RÚV segir Úlfar að málið hafi auðvitað komið við sig. „Þetta eru kaldar kveðjur frá dómsmálaráðherra fyrir mín störf,“ er haft eftir Úlfari.
Úlfar Lúðvíksson var skipaður í embætti lögreglustjóra á Suðurnesjum árið 2020. Hann hafði þá meðal annars gegnt embætti lögreglustjóra á Vesturlandi og á Vestfjörðum og embætti sýslumanns á Ísafirði og Patreksfirði. Hann hafði jafnframt verið formaður Lögreglustjórafélagsins frá 2016.