Hinn 37 ára gamli Lennon lagði fótboltaskóna á hilluna í febrúar í fyrra en hefur verið að vinna í því að ná sér í þjálfaramenntun.
Lennon skoraði 101 mark í 215 leikjum í efstu deild karla og er í fámennum hópi þeirra sem hafa brotið niður hundrað marka múrinn.

Lennon tilkynnti á samfélagsmiðlum að hann sé nú búinn að klára nýtt þjálfaranámskeið hjá Knattspyrnusambandi Íslands.
Skotinn er því kominn með KSÍ B þjálfaragráðu eða UEFA B Diploma á ensku.
Lennon er greinilega með háleit markmið á þjálfaraferli sínum.
„Einu skrefi nær því að verða næsti Sir Alex Ferguson,“ skrifaði Lennon á samfélagsmiðla og birti mynd af staðfestri þjálfaragráðu sinni undirritaða af KSÍ mönnunum Þorvaldi Örlygssyni (Formaður KSÍ), Jörundi Áka Sveinssyni (Sviðsstjóri knattspyrnusviðs) og Arnari Bill Gunnarssyni (Deildarstjóri Fræðsludeildar KSÍ).
Sir Alex Ferguson er sigursælasti knattspyrnustjóri sögunnar en hann vann 49 titla með sínum liðum þar af 38 titla með Manchester United. Ferguson er Skoti eins og Lennon.