Þetta er niðurstaðan eftir að Tottenham og Manchester United komust bæði áfram úr undanúrslitum Evrópudeildarinnar í gærkvöld. Þar með er ljóst að annað þessara liða, sem sitja aðeins í 16. og 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, mun fara í Meistaradeildina á næstu leiktíð. Úrslitaleikurinn á milli liðanna fer fram í Bilbao miðvikudagskvöldið 21. maí.
Áður höfðu ensku liðin náð svo góðum árangri í Evrópukeppnum í vetur að þau tryggðu Englandi eitt aukasæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð, en tvær bestu landsdeildir Evrópu hverju sinni fá slíkt aukasæti.
Fimm efstu liðin í ensku úrvalsdeildinni munu því komast í Meistaradeildina. Meistarar Liverpool eru eina liðið sem þegar hefur tryggt sér eitt af þessum fimm sætum.
Þegar þrjár umferðir eru eftir af úrvalsdeildinni skilja aðeins sjö stig að Arsenal í 2. sæti og Aston Villa í 7. sæti, og því ljóst að hart verður barist um að enda í hópi fimm efstu liðanna.

Liðin sem enda fyrir neðan 5. sæti geta einnig komist í Evrópukeppni á næstu leiktíð, í Evrópudeildina eða Sambandsdeildina, og það gæti í besta falli farið svo að England eigi tíu lið í Evrópukeppnum á næstu leiktíð. Öruggt er að níu ensk lið komast í Evrópukeppni og staðan er svona núna:
Meistaradeildin: 1.-5. sæti í úrvalsdeildinni og Manchester United eða Tottenham.
Evrópudeildin: 6. sæti í úrvalsdeildinni og bikarmeistarar.
Sambandsdeildin: Newcastle sem deildabikarmeistari.
Þetta kemur þó til með að breytast. Ef til dæmis Newcastle endar í hópi fimm efstu liða og kemst í Meistaradeildina, þá fær liðið í 7. sæti úrvalsdeildarinnar sæti í Sambandsdeildinni.
Svo er spurning hvernig bikarúrslitaleikur Manchester City og Crystal Palace fer. Ef City vinnur og endar meðal sex efstu í úrvalsdeildinni þá fær liðið í 7. sæti úrvalsdeildarinnar sæti í Evrópudeildinni, og liðið í 8. sæti færi í Sambandsdeildina.
Það gæti einnig haft áhrif ef Chelsea vinnur Real Betis í úrslitaleik Sambandsdeildarinar 28. maí, sem skilar þáttökurétti í Evrópudeildinni, en það hefur ekki áhrif ef Chelsea endar einnig í hópi fimm efstu í úrvalsdeildinni.
England gæti fræðilega séð eignast alls tíu lið í Evrópukeppnum ef að Palace verður bikarmeistari og Chelsea vinnur Sambandsdeildina en endar í 7. sæti úrvalsdeildarinnar.