Innlent

Þrír fluttir á sjúkra­hús eftir um­ferðar­slys við Smára­lind

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Vísir/Vilhelm

Þrír voru fluttir á sjúkrahús eftir umferðarslys á brúnni fyrir ofan Fífuhvammsveg við Smáralind í Kópavogi.

Þetta segir Guðmundur Hreinsson, varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í samtali við fréttastofu.

Hann segir að fjórir sjúkrabílar og tveir dælubílar hafi verið sendir á vettvang.

„Mér skilst að þetta hafi verið tveggja bíla árekstur, aftanákeyrsla. Skilst það. Það var enginn fastur, enginn klipptur úr bílunum, en við sendum dælubíla til að loka vegum og svoleiðis,“ segir hann.

Hann telur að allir hafi verið með meðvitund þegar þeir voru fluttir á sjúkrahús, en kvaðst ekki vita meira um ástand þeirra.

Heimir Ríkarðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að annar bíllinn hafi farið yfir grindverk og rúllað niður brekku. Lögregluþjónar séu enn að störfum á vettvangi og frekari upplýsingar liggi ekki fyrir.

Mbl greindi fyrst frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×