Erlent

Kosningar í Ástralíu: Fylgi Í­halds­flokksins dvínar vegna fram­göngu Trump

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Allt að átján milljón Ástralar ganga að kjörborðinu í dag.
Allt að átján milljón Ástralar ganga að kjörborðinu í dag. EPA

Kjördagur er runninn upp í Ástralíu. Von er á æsispennandi þingkosningum í skugga Trump-tolla, loftslagsvár, sem hefur undanfarin ár látið á sér kræla í landinu, og kreppu á húsnæðismarkaði. 

Anthony Albanese sitjandi forsætisráðherra og oddviti verkamannaflokksins sækist eftir endurkjöri en hans helsti keppinautur er Peter Dutton oddviti frjálslynda íhaldsflokksins. Ef marka má skoðanakannanir er harður bardagi í vændum og búist er við að mjótt verði á munum. 

Sekt fyrir að kjósa ekki

Albanese hefur í stjórnartíð sinni lagt áherslu á umhverfismál og bætt alþjóðatengsl. Vinsældir hans hafa þó dvínað og hann verið gagnrýndur fyrir aðgerðarleysi í þeim málefnum sem efst voru á baugi í kosningabaráttunni, til að mynda húsnæðismálum, yfirstandandi lífskjarakreppu og heilbrigðismálum. 

Dutton hefur einna helst látið til sín taka í umræðu um vókisma, hefur sagt ástralska þjóðfélagið of umburðarlynt og að hann berjist fyrir „hinu gleymda fólki“ í Ástralíu sem væri komið með nóg af pólitískum rétttrúnaði. Þá hyggst hann taka til í innflytjendamálum. 

Brimbrettaköppum á Bondi ströndinni í Sydney þótti óþarfi að klæða sig áður en haldið var á kjörstað. EPA

Samkvæmt fréttavakt BBC liggja viðskiptatengsl við Bandaríkin einnig þungt á kjósendum í kosningunum en rúmur mánuður er síðan Donald Trump Bandaríkjaforseti fyrirskipaði tollahækkanir á Ástrali. Áður en Trump var settur í embættið var íhaldsflokknum spáð öruggum sigri en eftir rúmlega hundrað daga embættissetu eru horfurnar ekki jafn góðar fyrir flokkinn. 

Í umfjöllun NBC segir að kjósendur treysti frambjóðendum flokksins ekki jafn vel til að takast á við Bandaríkjastjórn Trump og öðrum frambjóðendum. Þess vegna hafi fylgi dalað undanfarnar vikur. 

Búist er við allt að 90 prósent kjörsókn, en þeir sem ekki mæta á kjörstað fá sekt upp á 20 ástralska dali, sem samsvara um 1700 krónum. Einhverjir dagar ef ekki vikur eru þangað til niðurstaðna er að vænta. 


Tengdar fréttir

Alba­nese boðar til þing­kosninga

Forsætisráðherra Ástralíu hefur boðað til þingkosninga í landinu og munu kjósendur þar ganga að kjörborðinu þann 3. maí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×