Þetta kemur fram í tilkynningu frá Högum. Þar segir að í desember á síðasta ári hafi verið greint frá því að óskuldbindandi tilboð hefðu borist í eignarhlut Olís, dótturfélags Haga, í Olíudreifingu (ODR). Í kjölfarið hafi þremur aðilum verið veittur frekari aðgangur að gögnum, og þeim boðið að skila inn uppfærðum óskuldbindandi tilboðum.
„Allir þrír aðilar skiluðu uppfærðum tilboðum í 40% eignarhlut Olís í ODR. Tilboðin reyndust vera undir væntingum um virði félagsins, og hafa Hagar því ákveðið að hætta söluferli á eignarhlut sínum í ODR,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Finni Oddssyni, forstjóra Haga, að á þeim tíma sem söluferlið stóð yfir hafi markaðsaðtæður og rekstur félagsins styrkst.
„Við metum það svo að eftirspurn eftir jarðefnaeldsneyti verði áfram sterk, eins og hækkun orkuspár gefur til kynna. Félagið býr að sterkum innviðum og þrautreyndum, öflugum hópi stjórnenda og starfsfólks og er þannig í ákjósanlegri stöðu til að nýta tækifæri sem felast í þjónustu með framtíðar orkugjafa samhliða orkuskiptum. Hjá Högum og Olís munum við sem eigendur og viðskiptavinir styðja ODR áfram í að treysta enn frekar þjónustu og rekstur og það mikilvæga hlutverk sem félagið gegnir þegar kemur að orkuinnviðum landsins, nú og til framtíðar.
Þeim sem tóku þátt í söluferli ODR og studdu við það þökkum við áhugann og gott samstarf,“ er haft eftir Finni.