Þetta er næstsíðasti áfangi einhverrar umdeildustu vegagerðar á Íslandi, sem jafnan er kennd við Teigsskóg. Áður var búið að brúa Þorskafjörð, sem þýddi níu kílómeta styttingu, og leggja þjóðveginn um Teigsskóg. Einnig er lokið gerð tengivega að sveitabæjum í Gufudal og Djúpadal, sem tímabundið eru hluti Vestfjarðavegar.

Í dag opnaði Vegagerðin tilboð í smíði annars vegar 58 metrar langa brúar á Djúpafjörð við Grónes og hins vegar 130 metrar langrar brúar á Gufufjörð. Innifalið í verkinu er rif á núverandi 119 metra bráðabirgðabrú á Gufufirði ásamt efnisflutningum úr núverandi vinnuplönum og gerð grjótvarnar og rofvarnar.

Fjórir verktakar buðu í brúasmíðina, þar af einn frá Noregi, Leonhard Nilsen & Sønner, en verkið var boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu. Hæsta boð áttu Íslenskir aðalverktakar, upp á tæpa 2,2 milljarða króna, eða 34 prósent yfir áætlun. Gert er ráð fyrir að verkinu verði að fullu lokið 30. september á næsta ári, eftir sautján mánuði.
Forsenda verksins er gerð 3,6 kílómetra langra vegfyllinga yfir Gufufjörð og Djúpafjörð, sem Borgarverk annast. Borgarverk smíðaði einnig bráðabirgðabrú yfir í Grónes vegna smíði varanlegu brúnna.
Vegagerðin um Gufudalssveit var skýrð í þessari frétt Stöðvar 2 í lok nóvember 2023 þegar vegurinn um sjálfan Teigsskóg var opnaður:
Lokaáfanginn er hins vegar eftir. Það er smíði 250 metra langrar stálbogabrúar yfir Djúpafjörð. Sú brú verður í stíl við brúna yfir Mjóafjörð í Djúpi og nýju Eldvatnsbrúna í Skaftárhreppi. Brúin verður smíðuð á verkstæði en sett saman á staðnum.
Að sögn Sigurþórs Guðmundssonar, verkefnisstjóra Gufudalssveitar hjá Vegagerðinni, er stefnt á að bjóða það verk út í haust. Hann segir enn óvíst um verklok.

Með þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar fæst tólf kílómetra stytting. Með framkvæmdunum í heild styttist Vestfjarðavegur um 22 kílómetra. Jafnframt færist leiðin af tveimur fjallvegum, Hjallahálsi og Ódrjúgshálsi, og verður eingöngu láglendisvegur um Gufudalssveit.
