Handbolti

Guð­jón Valur missir fyrirliðann sinn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Julian Köster í leik með þýska landsliðinu gegn því íslenska.
Julian Köster í leik með þýska landsliðinu gegn því íslenska. vísir/getty

Þýska úrvalsdeildarfélagið Gummersbach varð fyrir áfalli um helgina er fyrirliði liðsins ákvað að semja við Kiel.

Julian Köster er nefnilega búinn að skrifa undir fjögurra ára samning við þýska stórliðið. Eins og svo oft í handboltaheiminum þá fer hann ekkert strax því samningurinn tekur gildi sumarið 2026.

Guðjón Valur Sigurðsson, þjálfari Gummersbach, getur því nýtt sér krafta Köster eina leiktíð í viðbót.

„Kiel er sigursælasta félag landsins og eitt stærsta félag heims. Það er heiður að fá að spila fyrir félagið. Ég hlakka til að takast á við þetta nýja verkefni. Í millitíðinni mun ég njóta þess að spila með Gummersbach,“ sagði Köster.

Guðjón Valur spilaði sjálfur með Kiel á sínum tíma og tók tíðindunum ágætlega.

„Auðvitað vildum við halda fyrirliðanum okkar en við virðum hans ákvörðun. Það er samt ekki enn komið að kveðjustund. Ég ætla að vera þakklátur fyrir árið sem við eigum eftir saman í stað þess að vera svekktur,“ sagði Guðjón Valur auðmjúkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×