Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós eftir rétt rúmlega hálftíma leik þegar Ismaila Sarr renndi boltanum út á Eberechi Eze sem lét vaða fyrir utan teig. Eze smellhitti boltann sem söng í netinu og Emiliano Martinez átti ekki möguleika í marki Aston Villa.
Jean-Philippe Mateta fékk svo gullið tækifæri til að tvöfalda forystuna fyrir Palace snemma í síðari hálfleik eftir að Boubacar Kamara var dæmdur brotlegur innan vítateigs. Mateta fór á punktinn, en setti vítið framhjá markinu.
Mateta bætti þó að einhverju leyti upp fyrir vítaklúðrið þegar hann lét félaga sinn, Ismaila Sarr, hafa boltann á 58. mínútu. Sarr keyrði upp völlinn og smellti boltanum meðfram jörðinni í fjærhornið og staðan orðin 2-0.
Þrátt fyrir ágætar tilraunir Aston Villa tókst liðinu ekki að minnka muninn. Ismaila Sarr var hins vegar ekki hættur og hann bætti þriðja marki Palace við í uppbótartíma og gerði þar með endanlega út um leikinn.
Crystal Palace er því á leið í úrslit enska bikarsins í þriðja sinn í sögunni og mætir þar annað hvort Nottingham Forest eða Manchester City.