Sex hópnauðganir hafa komið inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu það sem af er ári. Það er talsverð fjölgun frá fyrri árum, en undanfarin fimm ár hafa milli sex og tíu mál verið tilkynnt til lögreglu á ári.
„Það koma fleiri slík tilvik til okkar en til lögreglunnar. Það voru tólf einstaklingar sem komu til Stígamóta í fyrra sem afleiðingu af hópnauðgun en þetta hefur farið upp í þrjátíu á ári áður,“ segir Drífa Snædal, talskona Stígamóta.
„Þetta er að sjálfsögðu rosalegt og ég ætla rétt að vona að þetta sé ekki merki um að hópnauðgunum sé að fjölga svona hressilega.“
Hún bendir á að þolendur kynferðisbrota leiti gjarnan til Stígamóta nokkuð eftir að þeir verða fyrir ofbeldinu. Því nemi Stígamót ekki fjölgun í svona málum strax.
„Þetta virðast vera stórhættulegir menn“
Í tveimur málanna eru sömu þrír mennirnir grunaðir gerendur. Mennirnir eru sagðir hafa byrlað fyrir konunum á skemmtistaðnum English pub í miðborginni og flutt þær í sömu íbúðina í vesturbæ Reykjavíkur, þar sem meint brot voru framin. Mennirnir eru ekki í gæsluvarðhaldi en einn er í farbanni.
„Þetta virðast vera stórhættulegir menn og það er mjög undarlegt að þeir gangi lausir. Lögreglan þarf að svara því hvers vegna það er. Þegar þetta varðar öryggi og öryggistilfinningu kvenna, þá er „af því bara“ ekkert svar frá lögreglu. Hún þarf að skilgreina það frekar og skýra frá því hvers vegna stórhættulegir menn ganga hér lausir,“ segir Drífa.
Arnar Þór Gíslason, eigandi English pub sagði í samtali við RÚV í gær að mennirnir séu bannaðir á staðnum og aðrir skemmtistaðaeigendur hafi verið varaðir við mönnunum.
„Það er mjög mikilvægt að starfsfólk skemmtistaða sé mjög vel vakandi. Auðvitað þarf að mennta allt starfsfólk skemmtistaða í viðbrögðum við því ef eitthvað grunsamlegt atvik á sér stað eða ef þau verða þess áskynja að eitthvað sé í uppsiglingu. Þannig að það er gott og ég held að það hafi orðið betra með árunum þó að því miður hafi ekki tekist að afstýra afbrotum þarna.“
Þjóðerni skipti ekki máli hér
Mikil umræða hefur farið af stað um málin og sagði móðir annars brotaþolans í færslu á samfélagsmiðlum í gær að það sé sorglegt að horfa upp á fólk nýta sér málið til að kynda undir múslimaandúð. Enginn gerenda sé múslimi, allir kristnir og flestir frá Evrópu.
„Kynferðisbrot er kynferðisbrot og það skiptir ekki máli hver fremur það. Það þarf að viðurkenna kynferðisbrot og láta þá sem beita þeim axla ábyrgð. Og það þarf forvarnir. Þjóðerni skiptir ekki öllu máli hérna tel ég. Það sem skiptir máli er að tryggja öryggi kvenna gegn kynferðisbrotum,“ segir Drífa.