Þrír til viðbótar eru særðir eftir árásina, þar af tveir alvarlega. Árásarmaðurinn er sagður vera fimmtán ára gamall, en hann var yfirbugaður af kennurum eftir að hafa ráðist að samnemendum sínum í kaþólskum einkaskóla í Nantes.
Í færslu á X þakkar Emanuel Macron Frakklandsforseti kennurunum hugrekkið. „Með því að grípa inn í komu kennararnir líklega í veg fyrir frekari harmleik. Hugrekki þeirra er virðingarvert.“
Í umfjöllun France 24 segir að pilturinn sé nú í haldi lögreglu. Í löngum tölvupósti sem hann sendi á samnemendur sína skömmu fyrir árásina, og túlka má sem stefnuyfirlýsingu, sagði hann meðal annars hnattvæðingu hafa „breytt kerfinu okkar í vél sem spillir mannkyninu“.
Þá kallaði hann eftir „líffræðilegri uppreisn“ til að koma á náttúrulegu jafnvægi vegna „vistmorðs hnattvæðingarinnar“.
Reuters hefur eftir talsmanni lögreglunnar í Nantes að engin ummerki séu um að árásin teljist til hryðjuverkastarfsemi.
Þá hefur miðillinn eftir samnemanda hans að hann hafi aðhyllst hugmyndir Adolfs Hitler.
„Hann talaði um hugmyndafræði nasista. Við héldum að hann væri bara að reyna að vera fyndinn. Hann sagðist einu sinni vilja endurvekja nasismahugmyndir Hitler,“ er haft eftir samnemandanum.