Fótbolti

Þjálfari Nóels Atla rekinn eftir tapið gegn Ís­lendingaliði Sönderjyske

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nóel Atli hefur verið í stóru hlutverki þrátt fyrir ungan aldur.
Nóel Atli hefur verið í stóru hlutverki þrátt fyrir ungan aldur. Álaborg

Segja má að Daníel Leó Grétarsson hafi rekið síðasta naglann í kistu Menno van Dam, þjálfara Álaborgar í efstu deild danska fótboltans. Markið tryggði Sönderjyske sigur á Álaborg um helgina og nú er Van Dam atvinnulaus.

Sönderjyske og Álaborg mættust í hinum klassíska sex stiga fallbaráttuslag um helgina. Þar hafði Sönderjyske betur þökk sé marki miðvarðarins Daníels Leó, lokatölur 3-2. Var þetta sjötti leikur Álaborgar í röð án sigurs.

Eftir leikinn á sunnudag ákváðu forráðamenn Álaborgar að kalla þetta gott með Menno van Dam sem þjálfara liðsins og létu hann fara. Félagið reiknar með að það verði nýr þjálfari tekinn við þegar liðið mætir botnliði Vejle um næstu helgi.

Hinn 18 ára gamli Nóel Atli Arnórsson leikur með Álaborg og hefur komið við sögu í 12 leikjum til þessa á leiktíðinni. Þeir væru eflaust fleiri hefði hann ekki meiðst á miðju tímabili.

Sönderjyske er með 29 stig í 9. sæti að loknum 27 leikjum. Þar á eftir kemur Álaborg með 23 stig, Lyngby með 20 stig og Vejle með 18 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×