Vísir fjallaði í morgun um líkamsárásina sem átti sér stað í Ísafjarðarbæ upp úr miðnætti aðfaranótt laugardags. Upphaflega var greint frá því að veist hefði verið að tveimur til þremur einstaklingum en lögregla hefur nú staðfest að þolendur væru tveir.
Lögregla greindi frá því að afleiðingar árásarinnar væru ekki alvarlegar en málið yrði þó tekið föstum tökum. Yfirheyrslur yfir hinum grunuðu, karli og konu, fóru fram fyrr í dag.
Fór af stað atburðarás sem endaði með átökum
Fréttastofa ræddi um fimmleytið aftur við Hlyn Snorrason, yfirlögregluþjón á Vestfjörðum, sem sagði enn eiga eftir að yfirheyra fleiri og ná tali af hugsanlegum vitnum. Að sögn Hlyns virðast þolendur árásarinnar einungis vera tveir en í fyrstu var talið að þeir væru hugsanlega þrír.
Hann gat ekki tjáð sig um það hvort tengsl væru á milli þolendanna tveggja. Hins vegar virtust engin tengsl milli vera þolenda og gerenda.
Fréttastofu barst ábending um að hugsanlega væri um hatursglæp að ræða en svo virðist ekki vera eftir fyrstu yfirheyrslur.
„Eins og staðan er ekkert sem bendir til þess að um hatursglæp sé að ræða,“ sagði Hlynur. „Hittast þarna manneskjur undir áhrifum áfengis og það fer af stað einhver atburðarás sem endar með átökum.“
Á næstu dögum færu fram frekari yfirheyrslur. Þrátt fyrir að vera með meiri mönnun vegna þess fjölda sem er í bænum vegna tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður, sagði Hlynur að verkefnalega séð væri nokkuð rólegt.
„Fyrir utan þetta atvik, hefur allt gengið glimrandi vel, fram að þessu. Og við vonum að það verði áfram,“ sagði Hlynur.