KR og Valur gerðu 3-3 jafntefli í ótrúlegum leik á AVIS-vellinum í Laugardalnum. Jóhannes Kristinn Bjarnason skoraði jöfnunarmark KR-inga úr vítaspyrnu þegar ellefu mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Albert segir að úrslitin séu mikil vonbrigði fyrir Valsmenn.
„Ef maður horfir á þetta og ber saman liðin þá finnst mér eiginlega bara vandræðalegt að Valur vinni ekki þennan leik. Horfum á liðin sem voru hérna í kvöld; hversu margir kæmust í liðið hjá Val? Hversu marga myndu Valsmenn reyna að sækja í sitt lið? Kannski Jóa Bjarna? Tvö stig eftir tvo leiki. Þeir óðu í færum; 35 snertingar inni í teig en KR-ingar fengu líka fullt af færum. Þetta var svolítið kaflaskipt,“ sagði Albert.
Hann segir að Valur og KR séu á ólíkum stað, hvað varðar leikmenn sem liðið hafa fengið.
„Það sem er búið að leggja í þetta Valslið, miðað við hvert KR-ingar hafa sótt sína leikmenn. Það er verkefni sem er í þróun og það vita það allir. Það eru allir að róa í sömu átt með það. En hjá Val er einn og einn að tala um að vera í titilbaráttu; þeir séu með nógu gott lið til þess. Það er eins og það séu ekki allir á sömu blaðsíðu þar. Þegar maður horfir á þessa hópa finnst mér bara vandræðalegt að Valur hafi ekki unnið þennan leik.“
Næsti leikur Vals er gegn Grindavík í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins á laugardaginn. Næsti deildarleikur liðsins er gegn KA á miðvikudaginn eftir viku.
Innslagið úr Stúkunni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.