Beckham er einn af eigendum bandaríska fótboltaliðsins Inter Miami og liðið var að spila mikilvægan leik við Los Angeles FC í Meistaradeild Concacaf.
Los Angeles FC vann fyrri leikinn 1-0 og komst síðan yfir í seinni leiknum,
Lionel Messi kom til bjargar og skoraði tvívegis og Inter vann á endanum 3-1. Sigurinn skilar Inter Miami í undanúrslit Meistaradeildar Norður- og Mið-Ameríku.
Beckham var mjög kátur á hliðarlínunni og það náðist af honum skemmtileg mynd þegar Messi innsiglaði sigurinn með þriðja markinu.
Það sem gerir myndina enn skemmtilegri er að Victoria Beckham, eiginkonan hans, sýnir engin viðbrögð við hlið hans. Það gerir hún á meðan David er að missa sig af gleði.
Beckam hafði húmor fyrir öllu saman og birti myndina á samfélagsmiðlum sínum.
„Þeir segja að eiginkona mín hafi ekki áhuga á fótbolta. Hvernig voga þeir sér að segja þetta um Viktoríu mína? Tilfinningarnar voru á flugi í leiknum í gær, svona hjá okkur flestum. Ég elska þig Victoria Beckham og ég veit að þú hefur gaman af þessu líka. Alltaf mér við lið,“ skrifaði David Beckham eins og sjá má hér fyrir neðan.