Lífið

Vel yfir milljón á fermetrann og bað­kar í eld­húsinu

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Íbúðin á efstu hæð í sögufrægu húsi í miðbæ Reykjavíkur.
Íbúðin á efstu hæð í sögufrægu húsi í miðbæ Reykjavíkur.

Í sögufrægu húsi við Miðstræti 10 í hjarta Reykjavíkur er til sölu sjarmerandi risíbúð. Útsýnið úr íbúðinni er stórbrotið, yfir Þingholtin, Tjörnina og götur miðborgarinnar. Þá er saga hússins ansi áhugaverð.

Ásett verð er 53 milljónir króna, sem svarar til fermetraverðs upp á tæplega 1,5 milljónir króna miðað við skráða 36,6 fermetra. Nýtanlegur gólfflötur er þó nokkuð stærri þar sem hluti íbúðarinnar er undir súð.

Húsið sjálft var reist árið 1903 og þótti þá eitt það glæsilegasta í bænum, að því er fram kemur í samantekt Guðjóns Friðrikssonar sagnfræðings. Það var teiknað og byggt af Einari J. Pálssyni, einum fremsta húsasmið Reykjavíkur á sínum tíma, sem meðal annars kom að byggingu gamla Iðnskólans við Lækjargötu.

Í gegnum tíðina hafa margir þjóðþekktir einstaklingar búið í húsinu, þar á meðal Sveinn Björnsson, síðar fyrsti forseti Íslands, Bjarni Jónsson frá Vogi og dr. Alexander Jóhannesson, háskólarektor

Stofan er björt og rúmgóð, með hvítlökkuðum gólfborðum og gluggasetningu í anda hússins, og fallegu útsýni yfir Reykjavíkurtjörn.

Í eldhúsinu er nýleg hvít innrétting, og þar má einnig finna baðkar sem minnir á hvernig eldri borgaríbúðir voru oft hannaðar. Svefnherbergið er rúmgott og með góðum fataskáp. Salerni er á sameiginlegum gangi sem gengið er að úr eldhúsi.

Nánari upplýsingar á fasteignavef Vísis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.