Innlent

Hrina gikkskjálfta við Trölla­dyngju

Lovísa Arnardóttir skrifar
Mikil skjálftavirkni hefur verið síðustu daga.
Mikil skjálftavirkni hefur verið síðustu daga. Vísir/Arnar

Snarpur skjálfti fannst á höfuðborgarsvæðinu rétt um klukkan 18. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni mældist hann um 3,6 og eru upptök hans við Trölladyngju þar sem nú á sér stað gikkskjálftahrina. 

Minney Sigurðardóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir Veðurstofuna nú mæla hrinu gikkskjálfta við Trölladyngju. Sá stærsti, sem fólk fann fyrir um klukkan 18, hafi mælst um 3,6.  Rétt fyrir klukkan 18 mældist skjálfti að stærð 3,1 norður af Krýsuvík og stuttu seinna tveir sem mældust 2,3 og 1,4.

„Það er hrina gikkskjálfta við Trölladyngju. Þeir koma vegna spennu í jarðveginum vegna kvikugangsins. Fyrst voru þeir í Reykjanestá, svo Eldey og svo núna við Trölladyngju og eru þar núna,“ segir Minney.

Skjálftahrinan á mynd. Veðurstofan

Í tilkynningu frá Veðurstofunni kemur fram að skjálftahrinan hafi hafist um klukkan hálf sex og að um fimmtíu skjálftar hafi þegar mælst. Þá kemur fram að meðaldýpi skjálftanna sé á um fjögur til sex kílómetra dýpi.

Þá segir að fyrsta mat stærsta skjálftans sé að hann sé 3,6 að stærð og að nokkrir skjálftar hafi mælst yfir þremur. Þá segir að dregið hafi verulega úr skjálftavirkni á kvikuganginum sjálfum og að nánast engin virkni hafi verið við Reykjanestá og Eldey síðustu þrjár klukkustundirnar.

Fram kom í tilkynningu frá Veðurstofunni fyrr í dag að þó svo að eldgosinu sé lokið sem hófst á þriðjudag sé atburðinum ekki lokið.

Fréttin hefur verið uppfærð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×