Viðskipti erlent

Ís­land ekki á spjaldi Trumps en fær samt tíu prósenta toll

Jón Þór Stefánsson skrifar
Donald Trump sýndi tollaáform Bandaríkjanna á stóru spjaldi. Ekki var hægt að sjá nafn Íslands á spjaldinu.
Donald Trump sýndi tollaáform Bandaríkjanna á stóru spjaldi. Ekki var hægt að sjá nafn Íslands á spjaldinu. Getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti kynnti rétt í þessu nýja tolla á innflutningsvörur til Bandaríkjanna. Þar tilkynnti hann að tíu prósenta lágmarkstollur yrði lagður á öll ríki. Þar með talið er Ísland.

Trump sýndi þeim sem voru viðstaddir blaðamannafund hans, sem fór fram við Hvíta húsið, spjald með nýrri tollalagningu Bandaríkjanna. Ekki var að sjá að Ísland væri á spjaldinu, en hann talaði þó um að leggja tíu prósenta lágmarkstolla á öll lönd til að byggja upp efnahag Bandaríkjanna.

Trump tilkynnti að hann myndi leggja tuttugu prósenta toll á Evrópusambandsríki og fimmtán prósenta toll á Noreg, tíu prósenta toll á Bretland og 31 prósenta toll á Sviss. Þá sagði hann að tollur á kínverskar vörur yrði 34 prósent.

Einnig kynnti Trump 25 prósenta tollalagningu á alla erlenda bíla og bílahluti. Það mun taka gildi um miðnætti vestanhafs.

„2. apríl 2025 mun að eilífu verða minnst sem dagsins sem amerískur iðnaður endurfæddist, dagsins sem amerísk örlög voru endurheimt, og dagsins sem Ameríka varð auðug á ný!“ sagði Trump í ávarpi sínu.

Fréttin hefur verið uppfærð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×