Markmiðið með frumvarpinu er að draga úr plastmengun í umhverfinu. Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra, sem mælti fyrir frumvarpinu í febrúar sagði almenna neytendur ekki myndu finna fyrir lagabreytingunum. Framleiðendur og neytendur hafi nú þegar hafið framleiðslu á drykkjarílátum með áföstum töppum.
Undir þetta tók Ólafur Adolfsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í þriðju umræðu um málið á Alþingi í dag. Hvatti hann alla samflokksmenn sína til að greiða atkvæði með frumvarpinu. Honum varð að ósk sinni því sex viðstaddir þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði með sem og fjórir þingmenn Framsóknarflokksins. Alls greiddu 37 atkvæði með frumvarpinu en sjö á móti. Nítján voru fjarverandi.

Jón Pétur Zimsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur gagnrýnt frumvarpið en hann var fjarverandi í þinginu í dag. Hann sagði á dögunum áfasta tappa draga úr lífsvilja fólks.
Umræðan í þinginu vakti athygli Einars Bárðarsonar plokkara sem blöskraði tíminn sem þingmenn verðu í að ræða mál á borð við þetta, hvort plasttappar á einnota drykkjarmálum skyldu vera áfastir eða ekki.
„Mitt svar við þeirri spurningu er reyndar afdráttarlaust já!“
Áætlað sé að 100-150 milljónir tonna af plasti hafi nú þegar safnast saman í sjónum og um 8 milljónir tonna bætast við árlega. Plasttappar teljist meðal 10 algengustu rusltegundanna.
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, sagði um enn eitt óþarft málið að ræða af færibandi Evrópusambandsins í Brussel í Belgíu. Verið væri að leysa vandamál sem væri ekki til staðar.