Íslenski boltinn

Herra Víkingur kvaddur: „Rosa­lega gott tæki­færi til að hætta“

Sindri Sverrisson skrifar
Halldór Smári Sigurðsson kveður Víking eftir að hafa unnið sex stóra titla með liðinu og upplifað magnað Evrópuævintýri. Eitthvað sem var ekki alveg í spilunum þegar hann var að hefja sinn meistaraflokksferil.
Halldór Smári Sigurðsson kveður Víking eftir að hafa unnið sex stóra titla með liðinu og upplifað magnað Evrópuævintýri. Eitthvað sem var ekki alveg í spilunum þegar hann var að hefja sinn meistaraflokksferil. Vísir/Hulda Margrét

Halldór Smári Sigurðsson, „Herra Víkingur“, er hættur í fótbolta eftir að hafa spilað fyrir Víking alla sína tíð. Hann kveður félagið á hæsta tindi í sögu þess, eftir einstakt Evrópuævintýri sem hann óraði aldrei fyrir og sex stóra titla.

Halldór er kvaddur á samfélagsmiðlum Víkinga í dag og þar birtist ítarlegt kveðjuviðtal sem stuðningsmaðurinn Tómas Þór Þórðarson tók við hann. Viðtalið má sjá hér að neðan.

Halldór Smári lék 464 leiki fyrir Víkinga og fór með liðinu frá því að enda í 10. sæti næstefstu deildar sumarið 2009 í að komast í gegnum deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu. Hann kvaddi liðsfélaga sína í Aþenu í febrúar, eftir leiki Víkings við gríska stórveldið Panathinaikos í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar.

„Ég hef spilað minn síðasta leik. Það var tæknilega séð í Reykjavíkurmótinu í janúar en ég vil segja að það hafi verið í Austurríki, gegn LASK,“ segir Halldór í viðtalinu á miðlum Víkings.

„Þetta er bara komið gott. Ég ákvað þetta um hátíðirnar með sjálfum mér en átti erfitt með að sleppa orðunum frá mér. Ég gerði það svona tveimur vikum fyrir ferðina til Helsinki og Grikklands og sagði þá þjálfurunum frá þessu.

Ástæðan er í fyrsta lagi að þetta er rosalega gott tækifæri til að hætta. Þó að mér finnist ég geta haldið áfram þá er það kannski meira egóið að tala. Ég spilaði lítið í deildinni í fyrra og ákvað að hætta núna, eftir að hafa verið í Evrópu með Víkingi sem enginn bjóst við þegar ég var að byrja, frekar en að taka annað ár, spila kannski lítið og vita ekki hvernig myndi ganga, og fara að hætta svo. Þetta er góður tímapunktur. Komið fínt,“ segir Halldór Smári sem rifjar upp ferilinn með skemmtilegum hætti í viðtalinu sem sjá má hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×