Um var að ræða Teslu Model 3, 2020 árgerð, sem var í eigu lögreglumanns og var kyrrstæð og mannlaus utandyra í Reykjavík um nótt og morgun í ágúst 2023, þegar atvik málsins áttu sér stað.
Tveir mannanna eru á þrítugsaldri og sá þriðji er rétttæplega tvítugur.
Í ákæru sem fréttastofa hefur undir höndum segir að einn mannanna hafi um nóttina, gegn vilyrði um greiðslu hundrað þúsund króna, gert tilraun til að valda stórfelldum skemmdum á bílnum með því að skvetta bensíni undir og á bílinn og reynt að kveikja í honum. En þá hafi það ekki tekist.
Mennirnir eru síðan þrír ákærðir fyrir að kveikja í bílnum seinna um morguninn.
Í ákæru segir að einn þeirra hafi skipulagt og undirbúið verkið, með því að kaupa bensín, og svo fá áðurnefndan mann sem hafði reynt að kveikja í bílnum fyrr um nóttina. Sá sem hafði reynt hafi síðan fengið þriðja manninn til liðs við sig. Saman hafi þeir farið á vettvang, skvett bensíni undir og á bílinn og svo borið eld að. Í það skipti tókst að kveikja í bílnum og hann eyðilagðist.

Í ákæru er bíllinn metinn á 5,1 milljón. Tryggingafélagið Vörður krefst þess að mennirnir greiði félaginu tæplega 2,8 milljónir. Þá krefst lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu þess að mennirnir greiði 538 þúsund krónur.
„Það liggur fyrir að það var kveikt í bíl lögreglumanns í sumar, sem var talið tengjast starfi viðkomandi,“ sagði Grímur Grímsson, þáverandi yfirmaður miðlægrar deildar lögreglunnar, við Morgunblaðið í janúar 2024.