The Searchers, sem kemur frá Liverpool, var stofnuð árið 1957, þremur árum áður en frægasta hljómsveit borgarinnar, Bítlarnir, hófu störf. Þá var John McNally, sem er enn meðlimur hennar, 16 ára gamall, en í dag, 68 árum síðar, er hann 83 ára.
Líkt og hin hljómsveitin frá Bítlaborginni byrjuðu The Searchers á því að spila á klúbbum í Liverpool og Hamborg. Sveitin varð ansi vinsæl snemma á sjöunda áratugnum, og tók hún þátt í bresku innrásinni svokölluðu, þar sem breskar hljómsveitir skutust upp á stjörnuhimininn vestanhafs.
Á meðal vinsælustu laga The Searchers eru Needles and Pins, Sweets for My Sweet, Sugar and Spice, When You Walk in the Room, Don‘t Throw Your Love Away, og Love Potion No. 9. Flest þessara laga eru tökulög, en í mörgum tilfellum varð útgáfa The Searchers vinsælli en frumútgáfan.
Umferðin óþolandi
The Guardian greinir frá því að The Searchers hyggist hætta. Miðillinn hefur eftir McNally, sem leikur á gítar, og hinum 81 árs gamla Frank Allen, sem spilar á bassa og syngur, að aldur þeirra hafi með ákvörðunina að gera. Einnig spili umferðin inn í, en þeim finnst leiðinlegt hvað það tekur langan tíma að ferðast á milli gigga.
„Aldurinn hægir smá á manni. Við áttum það til að halda 180 til 200 tónleika á ári. En að ferðast upp og niður hraðbrautina er það erfiða við starfið. Umferðin er miklu verri en hún hefur nokkurn tímann verið,“ segir Allen sem gekk til liðs við sveitina árið 1964.
McNally tekur undir það: „Umferðin eins og hún er í dag er algjör martröð.“