Til skoðunar er að opna herstöð á svæðinu og komast þannig hjá Posse Comitatus-löggjöfinni, sem bannar þátttöku hersins í löggæsluaðgerðum innanlands. Ef þetta reynist mögulegt sjá menn fyrir sér að teygja svæðið undir eftirliti hersins meðfram landamærunum til Kaliforníu.
Samkvæmt umfjöllun Washington Post hafa ráðamenn í Pentagon meðal annars óskað lögfræðiálits á því hvort það væri löglegt að láta hermenn handtaka einstaklinga sem reyndu að komast ólöglega yfir landamærin frá Mexíkó, ef landamæra verðir væru ekki nálægir.
Hugmyndin er sú að þar sem umrætt svæði væri skilgreint sem herstöð, mættu hermenn handtaka viðkomandi og halda þeim fyrir að fara ólöglega inn á herstöð, þar til lögregla mætti á svæðið.
Heimildarmenn Washington Post segja Hvíta húsið hafa átt aðkomu að viðræðum um málið um nokkurt skeið en það liggi ekki fyrir að fyrirætlanirnar verði samþykktar af Donald Trump forseta.
Varnarmálaráðherrann Pete Hegseth hefur hins vegar verið mjög áfram um aðkomu hersins að því að „verja landamærin“.