Enski boltinn

Púllarinn dregur sig úr hópnum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ryan Gravenberch er haldinn aftur til Liverpool-borgar og sinnir nú endurhæfingu í von um að ná leik Liverpool og Everton eftir tvær vikur.
Ryan Gravenberch er haldinn aftur til Liverpool-borgar og sinnir nú endurhæfingu í von um að ná leik Liverpool og Everton eftir tvær vikur. Getty/Andrew Powell

Ryan Gravenberch, leikmaður Liverpool, hefur neyðst til að draga sig úr landsliðshópi Hollands vegna meiðsla. Meiðslin eru að líkindum ekki alvarleg en hann hefur verið máttarstólpi á miðju enska liðsins í vetur.

Holland á fyrir höndum tveggja leikja einvígi við Spán í átta-liða úrslitum Þjóðadeildarinnar. Fyrri leikurinn fer fram í kvöld á De Kuip-vellinum í Rotterdam.

Gravenberch tekur ekki þátt en hann meiddist í úrslitaleik deildabikarsins milli Liverpool og Newcastle síðustu helgi. Liverpool tapaði leiknum 2-1 og er úr leik í öllum útsláttarkeppnum eftir tap fyrir PSG í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar örfáum dögum fyrr.

Miðjumaðurinn finnur enn til vegna meiðsla sem hann verð fyrir um helgina. Þau gera að verkum að hann getur ekki tekið þátt í komandi leikjum við Spán, segir í yfirlýsingu hollenska knattspyrnusambandsins.

Gravenberch varð fyrir þónokkrum meiðslum á síðustu leiktíð, hans fyrstu í Bítlaborginni, og gekk illa að fóta sig.

Hann hefur aftur á móti slegið í gegn í ár og reynst einn mikilvægasti leikmaður liðsins undir stjórn landa hans Arne Slot. Liverpool hefur gengið vonum framar í ensku úrvalsdeildinni og virðist hreinlega tímaspursmál hvenær liðið tryggir sér Englandsmeistaratitilinn.

Gravenberch hefur spilað 41 leik í öllum keppnum með Liverpool á leiktíðinni en meiðslin gætu haldið honum frá næsta leik liðsins, grannaslag við Everton 2. apríl næst komandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×