Frá þessu greinir í samantekt um nýja mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjustofnunar.
Þar segir að um helmingi fleiri íbúðir hafi verið teknar af söluskrá í janúar og febrúar en í sömu mánuðum árin 2022 og 2023.
HMS segir mögulegt að allt að 37 þúsund einstaklingar gætu verið vantaldir á leigumarkaði, þar sem víðtækar undanþágur frá skráningarskyldu leigusamninga hafi leitt til ófullnægjandi upplýsinga um leikumarkaðinn.
„HMS hefur hafið átak í tölfræðisöfnun til þess að afla betri upplýsinga umhúsnæðisaðstæður erlendra íbúa á Íslandi í samræmi við nýtt hlutverk sitt um að halda leiguskrá. Erlendir íbúar eru mun líklegri til að vera á leigumarkaði en ekki, en einungis 14 prósent þeirra eru skráðir fasteignaeigendur,“ segir í samantektinni.
Á lánamarkaði séu vísbendingar um aukna ásókn í óverðtryggð lán samhliða lægri vöxtum og á byggingamarkaði hafi margar nýjar íbúðir komið á fasteignamarkað í janúar og febrúar.
Voru þær 585 talsins, samanborið við 425 í fyrra.
„Áætluð íbúafjölgun í húsnæðisáætlunum sveitarfélaga á síðasta ári reyndist vera nálægt rauntölum, en fjölgunin var ofmetin um 2,6 prósent. Sveitarfélögin miðuðu við áætlaða íbúafjölgun til að meta íbúðaþörf sína, sem nam tæplega 4.200 íbúðum í fyrra, en aðeins 3.665 íbúðir voru fullbyggðar og settar á fasteignamarkað það ár,“ segir einnig.