Fótbolti

Þjálfara­laust Man City lagði ó­vænt Chelsea

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vivianne Miedema kom inn af bekknum og breytti gangi mála.
Vivianne Miedema kom inn af bekknum og breytti gangi mála. Martin Rickett/Getty Images

Manchester City gerði sér lítið fyrir og lagði Chelsea 2-0 í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Sigurinn kom á óvart þar sem Man City rak nýverið þjálfara sinn og fátt virðist ætla að stöðva Chelsea á leið sinni að enn einum Englandsmeistaratitlinum.

Líkt og Vísir greindi frá á dögunum ákvað Man City að láta þjálfara sinn fara eftir óviðunandi árangur. Tímapunkturinn var áhugaverður og kom leikmönnum félagsins í opna skjöldu.

Annað sem gerði leik kvöldsins einkar áhugaverðan er að þetta var annar af fjórum leikjum liðanna á skömmum tíma. Um liðna helgi vann Chelsea 2-1 sigur þegar liðin mættust í úrslitum enska deildarbikarsins en í kvöld var það Man City sem fór með sigur af hólmi og Chelsea í vægast sagt erfiðri stöðu fyrir síðari leik liðanna sem fram fer í næstu viku.

Leikur kvöldsins var varfærnislega leikinn og hvorugt lið vildi taka óþarfa áhættu. Staðan var því markalaus í hálfleik. Þegar klukkustund var liðin kom markadrottningin Vivianne Miedema heimaliðinu yfir eftir að varnarmenn Chelsea gátu ómögulega hreinsað boltann almennilega frá marki.

Mayra Ramírez hélt hún hefði jafnað metin fyrir Chelsea en markið dæmt af vegna rangstöðu. Það nýttu heimakonur sér og Miedema bætti við öðru marki sínu og öðru marki Man City þegar mínúta var til loka venjulegs leiktíma.

Lokatölur í Manchester-borg 2-0 heimaliðinu í vil og verðandi Englandsmeistarar í Chelsea í vondum málum fyrir síðari leik liðanna. Var þetta fyrsta tap Sonia Bompastor síðan hún tók við þjálfun Chelsea. Jafnframt var þetta fyrsta tap liðsins á leiktíðinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×