Körfubolti

„Við vorum mjög sigurvissar“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ísabella stekkur upp í skot, umkringd varnarmönnum. 
Ísabella stekkur upp í skot, umkringd varnarmönnum.  vísir / anton

„Við vorum búnar að undirbúa okkur vel fyrir þennan leik og komum tilbúnar“ sagði Ísabella Ósk Sigurðardóttir eftir sigur Grindavíkur í bikarundanúrslitum gegn Þór Akureyri. Hún átti stóran þátt í sigrinum með sínum 14 stigum, 8 fráköstum, 3 stoðsendingum og 3 blokkum.

„Við vorum allar með mikið sjálfstraust og vorum að spila vel saman. Auðvitað veit maður aldrei en við vorum mjög sigurvissar í dag“ sagði Ísabella um frammistöðu síns liðs.

Leikurinn var mjög sveiflukenndur. Grindavík var með góða ellefu stiga forystu eftir fyrri hálfleik en skoraði svo ekki stig fyrstu sjö mínúturnar í seinni hálfleik, leikurinn var þá orðinn jafn.

„Það fer alveg smá um mann en við komum til baka, þær áttu sín áhlaup og við áttum okkar áhlaup, þannig var bara leikurinn í dag. En við náðum að klára þetta, það er það sem skiptir máli.“

Hart tekist á. vísir / anton

Það hjálpaði Grindavík mikið að leikurinn fór fram á þeirra „heimavelli“ í Smáranum.

„Algjörlega og okkur líður mjög vel að spila hérna. Geggjað að fá svona mikið af stuðningsfólki, það hjálpaði mikið.“

Í úrslitaleiknum á laugardag verður svo nágrannaslagur. 

„Geggjað að fá Grindavík – Njarðvík í úrslitunum. Nú förum við bara að undirbúa okkur fyrir þann leik“ sagði Ísabella að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×