Valur hafði verið sterkari aðilinn þegar Ögmundur fékk beint rautt spjald fyrir að setja olnbogann í leikman ÍR eftir að hafa gripið boltann. Sömuleiðis var vítaspyrna dæmd og kom Guðjón Máni Magnússon gestunum úr Breiðholti yfir.
Orri Sigurður Ómarsson jafnaði metin eftir hornspyrnu aðeins örfáum mínútum síðar og Patrick Pedersen kom Val yfir þegar fimm mínútur voru til loka fyrri hálfleiks. Í uppbótartíma fengu gestirnir vítaspyrnu en að þessu sinni varði Stefán Þór Ágústsson spyrnu Guðjóns Mána og staðan 2-1 í hálfleik.
Varamaðurinn Víðir Freyr Ívarsson jafnaði metin þegar þrjár mínútur voru til loka venjulegs leiktíma. Að honum loknum var staðan enn 2-2 og því þurfti vítaspyrnukeppni til að útkljá hvort liðið myndi mæta Fylki í úrslitum þar sem engin framlenging er í leikjum Lengjubikarsins.
Stefán Þór reyndist hetja Vals en hann varði tvær spyrnur ÍR-inga og tryggði Val sæti í úrslitaleiknum sem fram fer á laugardaginn kemur.