Helena Rós Sturludóttir, upplýsingafulltrúi ríkislögreglustjóra, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Hún veit ekki hvort sérsveitin sé enn að störfum fyrir vestan, og segist ekki geta veitt frekari upplýsingar um málið að svo stöddu. Málið sé á forræði lögreglunnar á Vestfjörðum.
Enginn handtekinn
Mbl.is greindi fyrst frá málinu, og hefur eftir Hlyni Hafberg Snorrasyni, yfirlögregluþjóni á Ísafirði, að talið sé að hættuástandi hafi verið afstýrt.
Helgi Jensson, lögreglustjóri á Vestfjörðum, segist í samtali við Vísi ekki vita til þess að nokkur hafi verið handtekinn í aðgerðum lögreglu. Að öðru leyti geti hann ekki tjáð sig frekar um málið. Von sé á tilkynningu frá lögreglu.
Veistu meira um málið? Sendu okkur ábendingu á ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði er heitið.
Ekki talið tengjast aðgerðum í grunnskólanum
Fréttastofa hefur undir höndum tölvupóst frá skólastjóra grunnskólans í Bolungarvík þar sem greint er frá heimsókn tveggja lögreglumanna í skólann. Í honum segir að ekki hafi myndast ógnvænleg aðstaða í skólanum þrátt fyrir „ákveðnar aðstæður“ í bænum.
„Með tilliti til bæði pósta og símtala sem við höfum fengið, viljum við fyrirbyggja allan misskilning og upplýsa ykkur um að tveir lögreglumenn komu í skólann í morgun í leit að ákveðnum upplýsingum. Staðan var ekki metin ógnvænleg fyrir neina hér í skólanum þó svo að ákveðnar aðstæður hafi myndast í bænum þegar líða tók á daginn. Okkar viðbrögð hafa tekið mið af ráðleggingum lögreglunnar á Vestfjörðum,“ segir í þessum pósti.
Helgi segir að hann telji ekki að vera sérsveitarinnar í Bolungarvík tengist heimsókn lögreglu í grunnskólann með nokkrum hætti, þrátt fyrir að mál geti tengst út og suður í litlum bæjum á borð við Bolungarvík.
Fréttin hefur verið uppfærð.