Erlent

Þrír Danir látnir eftir flug­slys í Sviss

Atli Ísleifsson skrifar
Vélin hrapaði til jarðar um tveimur mínútum eftir flugtak, nærri bænum La Punt Chamues-ch. Myndin er úr safni.
Vélin hrapaði til jarðar um tveimur mínútum eftir flugtak, nærri bænum La Punt Chamues-ch. Myndin er úr safni. Getty

Þrír Danir eru látnir eftir að lítil flugvél hrapaði til jarðar í suðvesturhluta Sviss skömmu eftir flugtak síðdegis í gær.

Danskir fjölmiðlar segja að hin látnu séu Line Markert og Andreas Christensen, lögmenn hjá lögfræðistofunni Horten, og sonur þeirra. Ekki voru fleiri um borð í vélinni.

Vélin var af gerðinni Extra EA-400 og tók á loft frá Samedan-flugvellinum í Sviss, skammt frá skíðabænum St Moritz, og var förinni heitið til Hróarskeldu í Danmörku. Vélinni hafði áður verið flogið til Sviss síðastliðinn fimmtudag.

Washington Post segir frá því að vélin hafi hrapað til jarðar um tveimur mínútum eftir flugtak, nærri bænum La Punt Chamues-ch.

DR segir frá því að starfsfólki Horten, sem er með skrifstofur í Hellerup, Aarhus og Herning, hafi verið greint frá slysinu í morgun, en þau Markert og Christensen höfðu starfað hjá Horten í um tuttugu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×