Boðað hefur verið til verkfalla, sem hefjast næstkomandi fimmtudag. Aðgerðirnar munu hafa mest áhrif á sýningu um líf og störf Ladda. Síðasti formlegi fundur FÍL og samninganefndar SA, sem sér um viðræðurnar fyrir hönd Leikfélags Reykjavíkur, var 5. mars þegar samninganefnd FÍL gekk út af fundinum.
Óbærileg staða fyrir leikara
Birna Hafstein, formaður FÍL, segir í samtali við fréttastofu að FÍL hafi lagt fram tillögu á föstudag en samninganefnd SA hafnað henni í gær. Ekkert móttilboð hafi borist.
„Við gerðum Borgarleikhúsinu nýtt tilboð á föstudag til að reyna að afstýra verkföllum. Því var hafnað í gær og þau sjá ekki ástæðu til að gera móttilboð. Þau sýna engan vilja í verki. Engan,“ segir Birna í samtali við fréttastofu.
Hún segir stöðuna algerlega óbærilega fyrir leikara.
„Að mínu mati hefur stjórn Borgarleikhússins fullkomlega brugðist sínu hlutverki og brugðist þessum hópi. Við gerum ekki annað en að reyna að liðka fyrir og halda samtalinu opnu, gera tilboð. Því er öllu hafnað. Það kemur aldrei neitt á móti. Stjórn Leikfélagsins hefur fullkomlega brugðist sínu hlutverki og þessum hópi.“
Alltaf bjartsýnn
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari segist hafa áhyggjur af stöðunni og mjög langt sé milli aðila. Hann hefur ekki boðað til annars samningafundar í viðræðunum.
„Það er voða erfitt að finna einhverja miðlun þegar bilið er svona breytt. Ég hef beðið færis og reynt að ná aðilum nær hvor öðrum. Það hefur ekki gengið ennþá. En við erum alltaf bjartsýn.“