Geimfararnir fjórir sem sendir voru út í geim í gær, þau Anne McClain og Nichole Ayers frá Bandaríkjunum, Takuya Onishi frá Japan og Kirill Peskov, frá Rússlandi, eru nú á braut um jörðu um borð í Dragon geimfari SpaceX og eiga að tengjast geimstöðinni í kvöld.
Have a great time in space, y'all!
— NASA (@NASA) March 14, 2025
#Crew10 lifted off from @NASAKennedy at 7:03pm ET (2303 UTC) on Friday, March 14. pic.twitter.com/9Vf7VVeGev
Það mun gera þeim Butch Wilmore og Suni Williams kleift að snúa aftur til jarðar á næstunni og stendur til að það gerist á miðvikudaginn.
Wilmore og Williams hafa verið strandaglópar í geimstöðinni í um níu mánuði en upprunalega átti geimferð þeirra einungis að taka átta daga. Þeim var skotið til geimstöðvarinnar um borð í Starliner geimfarið Boeing í júní en nokkrar bilanir áttu sér stað um borð í geimfarinu og var það því sent tómt aftur til jarðarinnar í september.
Tæknilega séð hefur enginn verið fastur um borð í geimstöðinni þar sem þar hefur alltaf verið geimfar fyrir geimfarana til að nota í neyðartilfellum. Í september voru svo sendir tveir geimfarar til geimstöðvarinnar og eiga þeir að snúa aftur með Wilmore og Williams í næstu viku.
Crew-10 on-orbit pic.twitter.com/PlHtPi4Dzh
— SpaceX (@SpaceX) March 14, 2025
Kallaði danskan geimfara „þroskaheftan“
Donald Trump, forseti, og Elon Musk, eigandi SpaceX, hafa notað ævintýri Wilmore og Williams í pólitískum tilgangi og skammast yfir því að þeim hafi ekki verið komið heim fyrr.
Þegar Musk hélt því fram í síðasta mánuði að ríkisstjórn Joes Biden hefði haldið þeim í geimnum af pólitískum ástæðum mótmælti danskur geimfari sem hefur tvisvar sinnum farið til geimstöðvarinnar því og benti á að löngu væri ákveðið að þau myndu snúa aftur með geimfarinu sem sent var í september og að þó Trump hefði verið við völd í meira en mánuð hefðu þeir ekki sent geimfar til að sækja þau.
Því svaraði Musk með því að kalla Andreas Mogensen, danska geimfarann, „þroskaheftan“.

Eins og fram kemur í grein AP fréttaveitunnar hafa þau Wilmore og Williams ávallt sagt að þau styðji þær ákvarðanir sem hafa verið teknar um veru þeirra í geimnum. Þau hafa bæði búið áður í geimstöðinni og hafa á undanförnum mánuðum unnið við viðgerðir og vísindastörf, svo eitthvað sé nefnt.
Williams fór í geimgöngu og varð þar með sú kona sem farið hefur í flestar geimgöngur, alls níu.