Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, greindi frá því í Bítinu á Bylgjunni í morgun að Eva Hauksdóttir lögmaður Páls Steingrímssonar skipstjóra hafi afhent honum gögn byrlunarmálsins svokallaða og óskað eftir að sett verði á fót rannsóknarnefnd Alþingis til að rýna málið, og þá sérstaklega aðkoma Ríkisútvarpsins, sem opinbert hlutafélag.
Skoða eigi hvort brotið hafi verið á mannréttindum blaðamannnanna
Málið var til rannsóknar hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra í rúm þrjú ár áður en það var látið niður falla, sem ríkissaksóknari staðfesti.
„Blaðamannafélagið hefur margítrekað gert alvarlegar athugasemdir við rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra á þessum sex blaðamönnum, sem hafa verið til rannsóknar vegna umfjöllunar um skæruliðamálið svokallaða. Við teljum að það sé full ástæða á að full rannsókn fari fram heildstætt og hvetjum nefndina til að skoða þetta mál,“ segir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Sérstaklega vilji félagið að rannsókn lögreglu verði skoðuð, afskipti ráðherra af málinu og fordæmalaus yfirlýsing lögreglu þegar málið var fellt niður.
„Það má alveg skoða það hvort afskipti lögreglunnar af þessum blaðamönnum hafi verið brot á mannréttindum þessara blaðamanna. Sérstaklega þegar við horfum á tjáningarfrelsið og þetta inngrip, sem þetta var.“
Kjarni málsins skæruliðamálið
Vilhjálmur sagði í Bítinu í morgun að blaðamennirnir hefðu gengið of langt í að afla gagna í málinu.
„Blaðamenn tóku við gögnum frá heimildamanni sem áttu augljóst erindi til almennings. Þeir voru að vinna vinnuna sína, voru að vinna blaðamennsku. Það er óumdeilt að þessi gögn áttu erindi til almennings og fréttirnar tala sínu máli,“ segir Sigríður Dögg.
„Allar fabúleringar um símstuld eru til þess fallnar að beina athygli almennings frá því sem málið snerist um og fréttir voru sagðar af: Að starfsfólk stórfyrirtækis lagði á ráð um hvernig mætti grafa undan trúverðugleika blaðamanna í því skyni að hafa áhrif á hvernig fjallað var um fyrirtækið.