Síðustu vikur hefur mikið verið fjallað um gríðarlega alvarlegt ástand í Breiðholtsskóla. Hópur drengja í sjöunda bekk og fleiri úr öðrum skólum haldi öllu hverfinu í heljargreipum. Börn hafa ekki þorað að mæta í skólann og ofbeldi virðist daglegt brauð.
Í gær hittust ráðalausir foreldrar barna við skólann og funduðu um stöðuna. Á meðan réðst hluti þessa hóps á dreng í árganginum. Drengurinn var nýbúinn að fá nýtt hjólabretti og ákvað í fyrsta sinn í langan tíma að fara einn út að leika á leikvelli við Breiðholtsskóla. Þar réðust drengirnir fimm á hann.
„Þeir tækla hann niður í jörðina, sparka ítrekað í höfuðið á honum og í líkamann. Hann náði einhvern veginn að komast undan og kom sér heim,“ segir Esther.
Hún segir son sinn hafa brotnað niður við heimkomuna.
„Ég hef bara aldrei séð jafn mikinn ótta í augum nokkurs annars. Þetta var bara hrikalegt. Hann grátbað mig um að við fengjum að flytja í burtu,“ segir Esther.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem sonur hennar lendir í sama hóp. Hún segir skólayfirvöld og borgina bregðast takmarkað við ástandinu.
„Þau eru ekki að hlusta. Það hefði verið hægt að grípa inn í svo löngu löngu fyrr. En það er ekki enn búið að grípa inn í,“ segir Esther.
Gerendurnir sleppi oftast með skrekkinn.
„Það er svo sem ekki mikið brugðist við. En ég veit af einu dæmi þar sem var mikið ofbeldi á skólatíma. Gerandanum var vikið úr skóla í einn dag,“ segir Esther.