Körfubolti

Njarð­víkingar geta náð toppliðunum en samt ekki orðið deildarmeistarar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Khalil Shabazz hefur verið frábær með Njarðvíkingum í Bónus deild karla í körfubolta í vetur.
Khalil Shabazz hefur verið frábær með Njarðvíkingum í Bónus deild karla í körfubolta í vetur. Vísir/Hulda Margrét

Baráttan um deildarmeistaratitilinn í Bónus deild karla í körfubolta mun standa á milli Tindastóls og Stjörnunnar en Njarðvíkingar eiga ekki lengur möguleika.

Njarðvík (26 stig) er fjórum stigum á eftir Tindastól (30) og Stjörnunni (30) þegar fjögur stig eru eftir í pottinum.

Njarðvíkingar geta þannig náð efstu liðunum að stigum og eiga meira segja eftir að mæta báðum liðunum fyrir ofan sig.

Að öllu eðlilegu ætti það að duga Njarðvíkingum til að vera með í keppninni um deildarmeistaratitilinn þótt líkurnar væru vissulega ekki með þeim.

Frábært gengi Tindastólsmanna á móti hinum tveimur liðunum, Stjörnunni og Njarðvík, sér aftur á móti til þess að Njarðvík getur aldrei endað í efsta sætinu og orðið þar með deildarmeistari.

Stólarnir hafa unnið alla þrjá leikina á móti Stjörnunni og Njarðvík í Bónus deildinni í vetur en Njarðvíkingar hafa aftur á móti tapað báðum sínum á móti Stjörnunni og Tindastól.

Njarðvíkingar væru þannig bara með tvo sigra í innbyrðis baráttu þessara þriggja liða en Stólarnir með þrjá. Tindastóll myndi þá alltaf enda ofar en Njarðvík.

Njarðvíkingar geta samt náð betri innbyrðis árangri á móti bæði Stjörnunni og Tindastóls í sitthvoru lagi endi öll þrjú liðin ekki jöfn. Það þarf þó mun meira til hjá þeim til að komast yfir í innbyrðis leikjum á móti Stólunum.

Njarðvík tapaði fyrri leiknum á móti Stjörnunni með 10 stigum og fyrri leiknum á móti Tindastól með 18 stigum.

Þetta þýðir jafnframt að Stólarnir verða alltaf efstir verði þeir jafnir Stjörnunni eða ef öll liðin enda jöfn.

Njarðvíkingar geta því ekki orðið deildarmeistarar en þeir gætu aftur á móti haft mikil áhrif á það hvort Tindastóll eða Stjarnan taki titilinn þar sem þeir eiga eftir að spila við bæði þessi lið.

Hér fyrir neðan má sjá samantekt Stattnördanna yfir það í hvaða sætum liðin í Bónus deild karla í körfubolta getað endað í.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×