Skoðun

Stöndum með börnum

Jón Pétur Zimsen skrifar

Við búum í landi ofgnóttar, það má segja að hér drjúpi smjör af hverju strái. Náttúran hefur gefið okkur margt t.d.: Hreina loftið, heitt vatn úr iðrum jarðar, yndislegt kalt vatn, sjávarauðlindina, græna raforku og hrein íslensk matvæli.

Fáar ef nokkrar þjóðir búa yfir jafn miklum náttúruauðlindum og Ísland. Hér er ekki hægt að stoppa upptalninguna því við, sem þjóð, höfum skapað okkur samfélag þar sem t.d.: Öryggi okkar er mikið, spilling lítil, jafnrétti í hæstu hæðum, stéttaskipting lítil, fátækt lítil, laun há og mannréttindi virt.

Á Íslandi er fyrirtaks jarðvegur til að ná árangri og engar afsakanir mögulegar ef við stöndum okkur ekki. Hvað þá ef við skröpum botninn í einhverjum málaflokkum.

Með Reykjavíkurborg í broddi fylkingar hefur í áratugi molnað undan grunnskólanum og borgin látið það afskiptalaust. Bara haldið áfram sömu leið ár eftir ár og vonast eftir betri útkomu með ömurlegum afleiðingum fyrir börn og unglinga.

Með því að axla ekki pólítíska ábyrgð á menntamálum og trú á handónýta menntastefnu er skólaskútan löngu strönduð. Ekki eru menntamálin, svo nokkru nemi, ávörpuð hjá nýrri borgarstjórn og þau látin sitja á hakanum eins og venjulega.

Er það forsvaranlegt að þjóð sem hefur allt til alls sé ekki í fremstu röð hvað menntun grunnskólabarna varðar? Árangur er í öfugu hlutfallið við kostnað kerfisins. Er ekki alveg ljóst að við erum á rangri leið?

Gleggsta dæmið er að við „töpuðum“ tveimur skólaárum í PISA-stigum á milli áranna 2018 og 2022. Tveimur árum. Þegar Íslensku skólarnir voru miklu meira opnir en skólar langflestra annarra landa í C19-faraldrinum. Hér er verulega mikið að.

Menntamál eru grjóthörð efnahagsmál og grundvöllur samkeppnishæfni og verðmætasköpunar landsins. Með þessu áframhaldi fjarar hratt undan skólaskútunni og við verðum eftirbátar annarra í flestu tilliti. Stéttaskipting mun aukast og lífsgæði munu dala.

Börnin vilja breytingar, foreldrar vilja breytingar, afar og ömmur vilja breytingar.

Það er ákall um breytingar úr öllum áttum. Við getum ekki látið fleiri kynslóðir útskrifast úr grunnskólanum með glötuð tækifæri til lífsgæða. Þetta hrun er mest á vakt vinstri manna, látum þá finna fyrir því að íslensk börn og unglingar skipta samfélagið máli.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins (jpz@althingi.is).




Skoðun

Sjá meira


×