Skoðun

VR á kross­götum - félags­menn verða að hafna sundrungu

Harpa Sævarsdóttir skrifar

Nú standa yfir kosningar til formanns og stjórnar hjá VR, þar eru nokkrir frambærilegir kostir og sitjandi formaður Halla Gunnarsdóttir. Því miður hefur allt starf innan VR farið á verri veg og mikil sundrung innan stjórnar sem er ekki heillavænlegt fyrir félagið. Það er því sérkennilegt að sjá í fjölmiðlum þegar Halla heldur því fram að eftir að hún tók við formennsku hafi aldrei verið meiri friður og samvinna innan stjórnar VR, því er hins vegar þveröfugt farið og sjaldan verið eins mikil sundrung og ósætti þar innan dyra. Réttkjörnir stjórnarmenn eru sakaðir um vanhæfi til þess að gegna stjórnarstörfum og eru hundeltir af rannsóknarnefnd um hæfi. Flestir stjórnarmenn reyna að vinna að heilindum í þeim málum sem því er falið að gegna, það er erfitt þegar sakir eru bornar upp á fólk sem standast enga skoðun. Fundarstjórn er nánast engin þar sem fólk veður upp með frekju og æsing ef allir eru ekki sammála því sem er verið að leggja fram af formanni og jafnvel er slökkt á viðkomandi í miðjum umræðum (þeir sem eru á fjarfundi). Þetta eru vinnubrögð sem Halla Gunnarsdóttir kemur með að borðinu fyrir VR félaga. Það er algjörlega ljóst að ef Halla nær kjöri sem formaður VR að okkar flotta félag fer þá endanlega í vaskinn og allt það góða starf sem hefur verið unnið síðastliðin ár eru unnin fyrir gýg. Ég virkilega vona að fólk kjósi rétt og að það kjósi ekki yfir sig þá óeiningu sem Halla Gunnarsdóttir stendur fyrir. Nú í lok kosningabaráttunnar notar hún úthringiverið sitt til þess að rægja meðframbjóðanda sinn Bjarna Þór Sigurðsson. Það er ekki drengileg framkoma en kemur ekki á óvart því miður. Bjarni Þór á ekki skilið þá ófræingarherferð sem Halla stendur fyrir gagnvart honum. Ég hef unnið með Bjarna í mörg ár innan stjórnar og ber honum söguna vel og yrði hann mun betri kostur fyrir VR ef hann næði kjöri sem formaður VR.

Höfundur er stjórnarmaður í VR og fyrrverandi varaformaður.




Skoðun

Sjá meira


×