Það er útvarpsstöðin X977 í samstarfi við Reykjavík Brewing Company sem blæs til mótsins og verður Tommi Steindórs umsjónarmaður þess. Mótið hefst kl. 15:00 næsta laugardag og fer fram í bruggstofu Reykjavík Brewing Company í Tónabíó í Skipholti og munu 32 manns leiða saman hesta sína í þessu sögufræga spili.
Leikurinn breyst
Í Ólsen ólsen extra er farið yfir víðan völl. Leikreglur í spilinu fræga og hvernig þetta kom til en fjórtán ár eru síðan síðasta mót var haldið. Tommi mætti í sínu fínasta pússi í sett og Ingimar benti á hvernig spilið hefði þróast undanfarin tuttugu ár.
„Þarna komum við inn á hvernig leikurinn hefur þróast. Þetta kemur þér í opna skjöldu en hann hefur þróast og það er búið að gera hann hraðari,“ segir Ingimar meðal annars um leikinn fræga en Tommi fer í þættinum yfir refsingu sem spilarar sæta fari þeir ekki eftir leikreglum mótsins.
Farið er yfir í þættinum hvaða keppendur hafa dregist saman og við hverju má búast í fyrstu viðureignum mótsins og mismunandi leikstíl keppenda. Þá kemur í ljós í þættinum að Tommi var með sérstakt sérfræðingateymi að baki sér við skipulagningu mótsins.
Hann spyr þá meðal annars hvert uppáhalds spil þeirra er í Ólsen, hvaða keppandi í mótinu þeir telja að verði svarti hesturinn og hvaða keppandi þeir telja að muni fara alla leið. Þar kennir ýmissa grasa. Stefán Árni spyr svo þá Tomma og Ingimar hvort hægt sé að vera góður í Ólsen ólsen og svarið gæti komið á óvart. Sjón er sögu ríkari.