Handbolti

Eftir­maður Þóris segir stelpurnar þurfa að æfa sig í að senda og grípa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gustav Gjekstad tók við norska kvennalandsliðinu af Þóri Hergeirssyni en það ekki gekk ekki nógu vel í fyrstu leikjunum undir hans stjórn.
Ole Gustav Gjekstad tók við norska kvennalandsliðinu af Þóri Hergeirssyni en það ekki gekk ekki nógu vel í fyrstu leikjunum undir hans stjórn. NTB/Ermindo Armino

Ole Gustav Gjekstad, eftirmaður Þóris Hergeirssonar hjá norska kvennalandsliðinu í handbolta, er ekki að byrja vel í nýja starfinu.

Hann talaði um það eftir fyrsta æfingamótið undir hans stjórn að allir leikmenn liðsins þyrftu að fara heim og æfa sig í að grípa og senda boltann. Norsku stelpurnar eru ríkjandi Evrópu- og Ólympíumeistarar.

Norsku stelpurnar spiluðu sína fyrstu landsleiki undir stjórn Gjekstad um helgina. Liðið tapaði tveimur leikjanna og rétt marði sigri á móti Póllandi. Norska liðið endaði því í þriðja sæti á æfingamótinu á eftir Danmörku og Hollandi.

Þórir Hergeirsson gerði norsku stelpurnar að Ólympíumeisturum og Evrópumeisturum á síðasta ári en hætti síðan með liðið eftir fimmtán ára starf sem aðalþjálfari auk þess að hafa verið aðstoðarþjálfari átta ár þar á undan.

„Við fengum okkar tækifæri en tæknimistök sáu til þess að við unnum ekki. Allir þurfa að fara heim og æfa sig í því að senda og grípa boltann. Við getum ekki hent frá okkur nítján til tuttugu boltum í leik á þessu getustigi,“ sagði Ole Gustav Gjekstad við TV2.

„Við megum ekki gleyma því að við vorum að spila við sterkt hollenskt lið sem er hefur líklega ekki verið betra. Þetta fór líka að líta betur og betur út hjá okkur í síðasta leiknum,“ sagði Gjekstad.

Norska liðið tapaði með þremur mörkum á móti Dönum en með tveimur mörkum á móti Hollandi. Norska liðið hefði getað unnið mótið með fjögurra marka sigri á Hollandi í lokaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×