Fótbolti

Mikael tryggði AGF stig gegn Vi­borg

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mikael skoraði sitt 5. deildarmark á leiktíðinni í dag. Hann hefur einnig gefið 8 stoðsendingar.
Mikael skoraði sitt 5. deildarmark á leiktíðinni í dag. Hann hefur einnig gefið 8 stoðsendingar. Jan Christensen/Getty Images

Mikael Neville Anderson skoraði eina mark AGF sem gerði 1-1 jafntefli við Viborg í dönsku efstu deild karla í knattspyrnu í dag.

Þessi 26 ára gamli miðjumaður var sem fyrr í byrjunarliði AGF sem þurfti á sigri að halda til að setja pressu á FC Midtjylland og FC Kaupmannahöfn sem sitja í tveimur efstu sætum deildarinnar.

Eftir markalausan fyrri hálfleik varð Frederik Tingager fyrir því óláni að setja knöttinn í eigið net á 53. mínútu og gestirnir í Viborg allt í einu komnir í forystu. Sú forysta entist þangað til 77 mínútur voru liðnar af leiknum en þá jafnaði Mikael metin.

Aðeins mínútu síðar fékk Elias Andersson beint rautt spjald í liði gestanna og AGF manni fleiri það sem eftir lifði leiks. Þrátt fyrir liðsmuninn tókst heimamönnum ekki að skora sigurmarkið og lokatölur 1-1 á New Vejlby-vellinum í Árósum.

Eftir jafnteflið er AGF með 36 stig í 3. sæti að loknum 21 leik, átta stigum á eftir toppliði FC Midtjylland þegar ein umferð er eftir af hefðbundinni deildarkeppni.

Fyrr í dag hafði Sævar Atli Magnússon spilað allan leikinn og nælt sér í gult spjald þegar Lyngby vann sjaldséðan 1-0 útisigur á Silkeborg. Sævar Atli og félagar eru með 15 stig í 11. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×