Innlent

Launin hækkuðu bara um fimm­tíu prósent

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Heiða Björg Hilmisdóttir er borgarstjóri og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Heiða Björg Hilmisdóttir er borgarstjóri og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Vísir/Vilhelm

Laun fyrir formennsku hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga hafa einungis hækkað um 50 prósent á síðustu tveimur árum, ekki 170 prósent eins og komið hefur fram í fjölmiðlum. Heildarlaun hækkuðu frá 581.167 krónum á mánuði í 868.671 krónu á mánuði frá 2023 - 2025.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Sambandinu í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um launamál formannsins, sem byggði á svörum þeirra til fjölmiðla. Sambandið harmar að hafa sent frá sér rangar upplýsingar um kjör stjórnarmanna.

Fram kom að laun formannsins hefðu hækkað um 170 prósent á einungis tveimur árum, og á sama tíma hefðu litlar breytingar orðið á störfum hans. Verkalýðsleiðtogar fordæmdu launahækkunina og sögðu ekki hægt að réttlæta hana með neinu móti.

Fréttastofu tókst ekki að ná í Heiðu Björgu Hilmarsdóttur, borgarstjóra og formann Sambandsins í gær, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Launin hærri 2023

Í yfirlýsingu Sambandsins kemur fram að laun formannsins hafi verið mun hærri árið 2023 en áður hefur komið fram. Í upphaflegu svari Sambandsins hafi staðið að launin hefðu verið 285.087 á mánuði, en í þeirri tölu hefði fast yfirvinnukaup ekki verið tekið með í myndina.

Mánaðarlegar yfirvinnugreiðslur vegna aukinna verkefna og fundarhalda hafi numið 296.080 krónum á mánuði árið 2023, og heildarlaun formannsins því 581.167 krónur á mánuði.

Launaþróun formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hér má sjá að heildarlaun formannsins hafa hækkað frá 581.167 krónum í 868.671 á mánuði. Akstursgreiðslurnar bættust við árið 2024. Hækkunin nemur því aðeins tæpum fimmtíu prósentum, ekki hundrað og sjötíu eins og áður kom fram.Samband íslenskra sveitarfélaga



Fleiri fréttir

Sjá meira


×