Innlent

Flugstarfsemin skapi tvö til fjögur hundruð ný störf á ári næsta ára­tuginn

Kristján Már Unnarsson skrifar
Guðmundur Rúnar í nýju byggingunni.
Guðmundur Rúnar í nýju byggingunni. Mynd/Stefán Ingvarsson

Leifsstöð er orðin ígildi stóriðju. Spáð er að flugstarfsemin á Keflavíkurflugvelli muni skapa milli tvö og fjögur hundruð ný störf á hverju ári næsta áratuginn. 

„Leifsstöð var opnuð árið 1987 og var fyrsta áratuginn nánast eina byggingin hér upp í heiðinni,“ segir Kristján Már Unnarsson og að núna sé þetta eitt öflugasta vaxtasvæði landsins.

Nú er verið að taka í notkun nýja viðbyggingu í austurálmu flugvallarins sem kostaði, með landgöngubrúm og flugvélastæðum, hartnær 30 milljarða króna og eru framkvæmdirnar þannig með þeim stærstu á Íslandi síðustu ár.

Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta- og þróunar hjá Isavia, segist stundum nota orðið stóriðja um starfsemi flugvallarins.

„Efnahagsleg umsvif Keflavíkurflugvallar, ferðaþjónustunnar, fyrirtækjanna sem hér starfa, tengiflugfélaganna íslensku, eru gríðarlega mikil, og við erum í rauninni líka að framkvæmda hér og bæta þjónustuna til að tryggja þennan efnahagslega grundvöll sem öll þjóðin nýtur góðs af,“ segir Guðmundur Daði.

Því er spáð að 8,4 milljónir farþega fari um Keflavíkurflugvöll í ár. Þjónustan kallar á mikinn fjölda starfa í ólíkum geirum. Áætlað er að átta til níu þúsund störf fylgja starfseminni og ef spár ganga eftir má gera ráð fyrir að flugvallasvæðið verði áfram ein öflugasta uppspretta nýrra starfa á landinu.

Nýja flugstöðvarálman séð frá flughlaðinu. Mynd/Stefán Ingvarsson

Þúsund starfsmenn á hverja milljón farþega

Guðmundur segir að fyrir hverja milljón farþega þurfirðu um þúsund starfsmenn.

„Það hefur verið meðaltalið sem hefur verið rétt á Keflavíkurflugvelli,“ segir hann og að samhliða fjölgun farþega fjölgi starfandi á flugvellinum um tvö til fjögur hundruð á hverju ári næsta áratuginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×