Fótbolti

Há­kon Arnar kom inn af bekknum í erfiðum leik í París

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hákon Arnar í leik kvöldsins.
Hákon Arnar í leik kvöldsins. AP Photo/Christophe Ena

Staðan var 4-0 París Saint-Germain í vil þegar Hákon Arnar Haraldsson kom inn af bekknum. Lið hans Lille skoraði hins vegar eina mark síðari hálfleiksins. Atlético Madríd er komið á topp La Liga, spænsku efstu deildar karla í knattspyrnu, eftir 1-0 sigur á Athletic Club.

Bradley Barcola gaf tóninn í París þegar hann kom PSG yfir eftir aðeins sex mínútna leik. Miðvörðurinn Marquinhos tvöfaldaði forystuna á 22. mínútu og Ousmane Dembélé gerði svo gott sem út um leikinn sex mínútum síðar.

Desire Doue bætti fjórða markinu við áður en fyrri hálfleik var lokið og staðan 4-0 í hálfleik. Hákon Arnar kom inn af varamannabekk gestanna áður en síðari hálfleikur hófst og hjálpaði sínum mönnum að halda andliti. Jonathan David skoraði eina mark síðari hálfleiks og lokatölur í París 4-1.

Hákon Arnar gerði hvað hann gat.FRANCK FIFE / AFP

PSG er sem fyrr á toppi deildarinnar enda hefur liðið ekki beðið ósigur í deildinni. Að loknum 24 leikjum er liðið með 62 stig eftir 19 sigra og fimm jafntefli. Lilla er með 41 stig í 5. sæti, tveimur á eftir Monaco sem er í síðasta Meistaradeildarsætinu.

Julián Alvarez reyndist hetja Atlético Madríd sem nýtti sér tap nágranna sinna í Real og er komið á topp La Liga. Alvarez skoraði eina mark leiksins þegar Athletic Club kom í heimsókn. Markið kom eftir undirbúning Marcos Llorente á 66. mínútu.

Atlético Madríd er nú með 56 stig á toppnum en Barcelona á leik til góða og getur náð toppsætinu á morgun. Bæði Barcelona og Real Madríd eru með 54 stig.

Í Þýskalandi vann Bayer Leverkusen 4-1 útisigur á Eintracht Frankfurt. Nathan Tella, Nordi Mukiele, Patrik Schick og Aleix Garcia með mörk Leverkusen á meðan Hugo Ekitike skoraði mark Frankfurt.

Leverkusen er nú með 53 stig eftir 24 leiki, átta minna en topplið Bayern München.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×