Neytendur

Rukkað því fólk hékk í rennunni

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Langar raðir hafa myndast við komusvæðið vegna bíla sem leggja of lengi í rennunni.
Langar raðir hafa myndast við komusvæðið vegna bíla sem leggja of lengi í rennunni. Stöð 2

Isavia mun rukka þá sem staldra við lengur en fimm mínútur í rennunni, á komusvæðinu við Keflavíkurflugvöll. Samskiptastjóri ISAVIA segir að fólk hafi lagt bílnum þar í allt að tuttugu mínútur, sem sé óásættanlegt.

Flestir kannast við að stoppa í rennunni Við Keflavíkurflugvöll þegar verið er að skutla vinum og vandamönnum á flugvöllinn. Á orgun verður farið að taka gjald þegar stoppað er lengur en fimm mínútur.

„Það hefur sem sagt komið í ljós að fólk hefur jafnvel verið að staldra lengur en æskilegt er í rennunni. Það hefur valdið töfum, það er að segja það hafa myndast raðir, og fyrirsjáanlegt að þetta geti truflað viðbragðsaðila ef þeir þurfa að komast að flugstöðinni,“ segir Guðjón Helgason, samskiptastjóri Isavia.

Fólk stoppar iðulega í rennunni til að sækja farþega, þrátt fyrir að þangað eigi aðeins að skutla fólki sem er á leið í flug.Stöð 2

Hann segir fjölmarga rekstraraðila hafi kallað eftir því að eitthvað yrði gert til að bregaðst við þessu. Niðurstaðan er sú að fyrstu fimm mínúturnar er frítt að leggja á svæðinu en eftir það kostar hver mínúta 500 krónur. Sólarhringur á svæðinu kostar 50 þúsund.

Guðjón segir að 80 prósent þeirra sem fara um rennuna staldri við skemur en fimm mínútur.

„Það eru vissulega 20 prósent notenda sem eru þá að nota hana lengur, sem er óæskilegt. Og átta prósent sem eru meira að segja að nota hana í 16-20 mínútur, sem er algjörlega óásættanlegt.“

Þeir sem þurfi aðeins lengri tíma til að komast inn í flugstöðina þurfi ekki að örvænta.

„Þá höfum við tekið þá ákvörðun að lengja gjaldfrjálsa tímann á skammtímastæðunum okkar, P2, komumegin við flugstöðina þannig að fólk geti verið lengur og það er farið úr fimmtán mínútum í hálftíma,“ segir Guðjón.


Tengdar fréttir

Rukka í „rennuna“ á flugvellinum

Ákveðið hefur verið að rukka í hina svokölluðu „rennu“ á Keflavíkurflugvelli. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia, en gjaldskyldan mun hefjast 4. mars næstkomandi, en það mun vera frítt að fara í gegnum hana taki það mann fimm mínútur eða minna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×