Handbolti

Sveinn spilar í fimmta landinu

Sindri Sverrisson skrifar
Sveinn Jóhannsson fer til Frakklands í sumar.
Sveinn Jóhannsson fer til Frakklands í sumar. Vísir/Vilhelm

Línu- og landsliðsmaðurinn Sveinn Jóhannsson mun spila með Chambéry í Frakklandi frá og með næstu leiktíð. Það verður fimmta landið sem þessi 25 ára handboltamaður iðkar sína íþrótt í.

Sveinn er uppalinn hjá Fjölni og eftir að hafa einnig spilað með ÍR hér á landi hefur hann leikið í Danmörku, Þýskalandi og nú með Kolstad í Noregi en heldur svo til Frakklands í sumar.

Sveinn, sem var í 18 manna hópi Íslands á HM í janúar en kom lítið við sögu, skrifaði undir samning til þriggja ára við Chambéry. Félagið hefur einu sinni orðið franskur meistari, árið 2001, og vann bikarmeistaratitil árið 2019.

„Ég er spenntur og glaður yfir því að ganga til liðs við félag á borð við Chambéry næsta sumar. Ég hef eingöngu heyrt góða hluti um félagið og ég er viss um að við pössum vel saman. Ég get ekki beðið eftir því að leggja hart að mér með nýjum liðsfélögum, metnaður minn er mikill og ég vil ná eins miklum árangri og hægt er með Team Chambé á komandi árum,“ sagði Sveinn á heimasíðu Chambéry.

Ljóst er að forráðamenn franska félagsins eru sigri hrósandi yfir því að hafa tryggt sér krafta Sveins.

„Sveinn mun færa okkur líkamlegan styrk, bæði í sókn og vörn. Hann er vanur Meistaradeild Evrópu með Kolstad. Hann er líka landsliðsmaður í blóma lífsins, vinnusamur og með hugarfar sem passar fullkomlega við Team Chambé og Phare [heimavöll Chambéry],“ sagði Baptiste Malfondet, yfirmaður íþróttamála hjá Chambéry.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×