Sveindís mætti í viðtal hjá RÚV eftir leikinn og var ánægð með ýmislegt í liði Íslands.
„Ég er stolt af stelpunum og við lögðum allt í þetta. Við gerum einhver mistök sem þær nýta sér vel. Við erum að spila á móti heimsklassa leikmönnum sem nýta sér mistökin sem við gerum.“
„Við skorum tvö mörk á þær og þær eru skíthræddar við okkur í lokin.“
Hún var svekkt að mörkin tvö sem Ísland skoraði hafi ekki dugað til að ná í að minnsta kosti eitt stig.
„Við viljum auðvitað taka þrjú stig þegar við skorum tvö mörk, allavega eitt. Þrjú mörk er ekki ásættanlegt og við hefðum átt að gera betur í verjast. Við skorum tvö mörk gegn heimsklassa liði sem ætti að duga en við tökum þær heima.“
Sveindís fékk gult spjald í leiknum fyrir að kvarta í dómaranum. Henni fannst ekki tekið jafnt á liðunum hvað varðar gulu spjöldin.
„Mér fannst ósanngjarnt að við erum að fá gul spjöld hægri vinstri en þær mega tefja allan leikinn og dómarinn gerir ekki neitt í því. Hún virtist bara ætla að dæma á okkur.“
Sveindís var fljót að svara þegar hún var spurð út í heimaleikin gegn Noregi og Sviss sem framundan eru í byrjun apríl.
„Við ætlum að vinna heima.“